144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

staðan á vinnumarkaði og samráð.

[15:10]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að halda áfram að tala um kjaramálin. Það sjá náttúrlega allir hversu alvarlegt ástandið er á vinnumarkaði og ég er algjörlega ósammála því að ríkisvaldið hafi ekki ríkum skyldum að gegna til þess að koma í veg fyrir að svona ástand myndist á vinnumarkaði. Ég held að það sé áfellisdómur fyrir ríkisstjórn þegar land, velmegunarsamfélag eins og við búum í, er komið á þann stað að það er nánast allsherjarverkfall í landinu, ófremdarástand á vinnumarkaði. Það er sérstakt úrlausnarefni, sérstök spurning að spá í það hvernig hægt er að stjórna landi svona að það fari út í þennan skurð.

Eitt sem því hefur verið haldið á lofti í umræðunni er traust og ég hlustaði á viðtal við einn forvígismanna launþegahreyfingarinnar fyrir helgi þar sem hann sagði að ein ástæðan fyrir því að svona væri komið væri sú að ekkert traust ríkti til ríkisstjórnarinnar eða hins opinbera, að loforð hefðu verið svikin, að samningar hefðu verið sviknir, og þess vegna er ekki hægt að nýta kraft hins opinbera til þess að leysa þessi mál. Eitt dæmi sem hefur verið nefnt í þessu er tekjuöflunarbandormur ríkisstjórnarinnar fyrir jól þar sem farið var í breytingar, algjörlega fordæmalaust, á atvinnuleysistryggingakerfinu án þess að hafa samráð við launþegahreyfinguna. Það var farið í breytingar á lífeyriskerfinu án þess að hafa samráð við launþegahreyfinguna og þar fram eftir götunum. Það er hægt að rekja mörg dæmi bara í því frumvarpi um alls konar breytingar og alls konar stílbrot í samskiptum við vinnumarkaðinn frá því sem við höfum séð. Þetta dæmi var tekið í þessu viðtali.

Mig langar að spyrja að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Kostar þetta samráðsleysi ekki mikið? Horfum við ekki upp á (Forseti hringir.) kostnaðinn akkúrat núna? Ríkisstjórnin (Forseti hringir.) hefði getað komið í veg fyrir þetta.