144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

staðan á vinnumarkaði og samráð.

[15:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Varðandi þessi tvö tilteknu mál sem eru nefnd til vitnis um samráðsleysið þá segi ég bara fullum fetum: Við buðum upp á samráð um þessi mál. Við óskuðum eftir samtali um þau. Því var alfarið hafnað. Algerlega þvert hafnað að eiga samtal um breytingar á atvinnuleysisbótatímanum eða nýju fyrirkomulagi varðandi þátttöku ríkisins í jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða. Það var ekki að viljann skorti til samráðs af okkar hálfu, það var einfaldlega ekki hægt að fá menn að borðinu til þess að tala saman.

Varðandi ábyrgð ríkisstjórnarinnar á ástandinu þá ætla ég bara að segja almennt að það hljóta fleiri en einn að bera ábyrgð. Ég skal ekki halda því fram að ríkisstjórnin, einstakir ráðherrar eftir atvikum, sá sem hér stendur, beri enga ábyrgð. Það er auðvitað ekki þannig. En það er líka eitthvað bogið við það að launþegahreyfingin sé í stanslausu stríði við stjórnvöld, sama hver er í ríkisstjórn. Hér leið heilt kjörtímabil frá 2009 til 2013 og það var eitt samfellt upplausnarástand í samskiptum við vinnumarkaðinn. Stöðugleikasáttmálinn lifði bara í nokkra mánuði, svo var þetta allt upp í loft allan tímann.

Ef við lítum aðeins yfir sviðið, hvað er það þá sem skiptir máli til þess að skapa ró og forsendur fyrir gerð kjarasamninga? Það skiptir máli að verðbólga sé lág. Er hún lág? Já, hún er lægri en hún hefur verið í áratugi. Það skiptir máli að menn hafi kaupmátt og sjái fram á að hafa kaupmátt. Kaupmáttur fór vaxandi í fyrra og meira en annars staðar. Er því spáð að hann vaxi áfram? Já, spáð er að hann vaxi um 3% áfram og á hverju ári. Það skiptir máli hvernig horfir í atvinnumálum. Er spáð miklu atvinnuleysi á Íslandi? Nei, það er spáð einhverju minnsta atvinnuleysi í Evrópu á Íslandi. Þetta eru bara örfá dæmi um ákveðnar grundvallarforsendur sem maður hefði almennt ætlað að skiptu máli til þess að menn gætu náð saman á vinnumarkaði. Þær eru allar til staðar.

Þess vegna segi ég: Við höfum í hendi okkar að viðhalda þessum árangri, að viðhalda stöðugleikanum, halda áfram að bjarga verðmætum og (Forseti hringir.) skapa störf, en við verðum öll að taka höndum saman til þess. Það getur ekki hvílt alfarið (Forseti hringir.) í fanginu á ríkisstjórninni.