144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

staðan á vinnumarkaði og samráð.

[15:15]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Nei, það á ekki að hvíla alfarið í höndunum á ríkisstjórninni og ég held að það hvíli í höndunum á okkur öllum hér inni. Ég vil segja fyrir hönd Bjartrar framtíðar að við erum mjög viljug til þess og teljum löngu tímabært að koma að samstarfi við ríkisstjórnina um það hvernig við eigum að leysa úr málum á vinnumarkaði, það sé löngu tímabært í raun og veru að t.d. formenn flokkanna setjist niður núna og fari yfir þessi mál, fari yfir það hvað ríkisvaldið getur gert.

Mínar hugleiðingar áðan snerust um punkt sem mér finnst mjög alvarlegur. Það er mikið rætt um að lítið traust sé í samfélaginu. Þegar forvígismenn launþegahreyfingarinnar segja að þeir séu búnir að afskrifa ríkið í raun og veru sem aðkomuaðila í lausn deilna á vinnumarkaði finnst mér það mjög alvarlegt. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra og ítreka spurningu mína: Hvað finnst honum um þessi sjónarmið? Verður hann var við það að traust ríki til hins opinbera? Og getur verið að ýmsar gjörðir eins (Forseti hringir.) og t.d. í tekjuöflunarfrumvarpinu hafi orðið til þess (Forseti hringir.) að rýra þetta traust? Hvernig, og það er lykilspurning, eigum við að byggja upp traust? Eigum við kannski að fara í það saman?