144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

kjaradeilur og breyting á skattkerfi.

[15:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég tel að ríkisstjórninni hafi reyndar tekist ágætlega í nokkrum stórum grundvallarmálum að ná aðeins ró í samfélaginu um þá þætti. Má ég nefna stjórnarskrána sem var hér í stöðugu uppnámi, fiskveiðistjórnarkerfið, það fékk þá (Gripið fram í.) meðferð hjá vinstri stjórninni að það kom nýtt frumvarp um grundvallarbreytingar á hverju einasta ári en það náðist aldrei að klára það því að menn voru á endanum ekki sammála. Ég nefni þetta nú bara svona tvennt sem augljós dæmi um mál sem geta ekki verið í stanslausu uppnámi. Vinstri stjórnin fékk fjögur ár, hún gerði ekkert í hvorugu þessara mála sem náði lendingu.

Varðandi það sem ríkisstjórnin getur gert til þess að skapa hér betri stöðu fyrir gerð kjarasamninga — já, skattkerfin eru til skoðunar. Það þarf að lækka aftur skatta sem voru hækkaðir hér á síðustu árum. Það skiptir máli, til dæmis fyrir millitekjuhópana. Það skiptir máli til þess að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins. Við erum með of háa jaðarskatta í kerfinu. Þeir fara hjá millitekjufólki yfir 50%. Það þýðir að meira en önnur hver króna sem þú bætir við þig í laun hverfur í skatt eða tapaðar bætur. Mér finnst það vera of mikið. Það kann að vera að einhverjir jafnaðarmenn hér í húsinu telji að það sé bara mátulegt, það mætti vera 60 eða 70%, en það er bara of langt gengið.

Hvernig stendur á því, ef útlitið er svona bjart heilt yfir, að það eru svona mikil átök? Það eru ýmsar ástæður fyrir því sem ekki er hægt að rekja í stuttu máli. En ég ætla að koma hérna með eina kenningu. Ég tel að atvinnurekendum í landinu hafi tekist um of að velta ábyrgðinni á því að gera betur við þá sem eru í lægstu launaflokkunum í fangið á ríkinu. Það er ekkert eðlilegt við það, með þau bótakerfi sem við erum með og tekjuskattskerfið eins og það er í dag, þar sem ríkið sér ekki eina krónu af launum upp í 240.000, að það sé áfram þannig að það sé vandamál ríkisins að bæta betur hlut (Forseti hringir.) þessa fólks. Það hlýtur að koma að því á einhverjum tímapunkti (Forseti hringir.) að atvinnurekendur taki að sér að greiða mannsæmandi laun þeim sem eru í lægstu (Forseti hringir.)tekjuhópunum. Það getur ekki bara verið vandamál ríkisins.