144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

kjaradeilur og breyting á skattkerfi.

[15:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin víkur sér algjörlega og hiklaust undan allri ábyrgð á ástandinu. Það er að öllum líkindum vegna þess einfaldlega að hún ræður ekki við þá stöðu sem upp er komin. Í fyrsta lagi ber hún ábyrgð á því að hún er komin upp, lætur eins og hún sé hissa. Ríkisstjórnin getur ekki einu sinni haldið upp á afmæli fullveldisins án þess að það lokist inni í þingflokkunum sitt á hvað.

Það er ekkert annað í stöðunni, virðulegur forseti, en að skapa þverpólitískan vettvang til að freista þess að ná ró og jafnvægi í samfélaginu. Það hefur komið fram hjá hv. þingmönnum sem hafa spurt ráðherrann á undan mér. Ég lýsi því yfir að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er jafnframt tilbúin til að koma að þessu borði til að freista þess að leysa þá alvarlegu stöðu sem upp er komin á Íslandi.

Hvað segir hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um þá hugmynd?