144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

langtímastefnumótun um sátt á vinnumarkaði.

[15:25]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði hér rétt áðan að við þyrftum samstöðu um heildaráherslur. Hann sagði jafnframt að ekki væri innstæða fyrir þessari óánægju á vinnumarkaði. Hann virtist ekki skilja hvað veldur þessari óánægju, hvert er raunverulega vandamálið. Jafnframt segir hann að á síðustu árum og áratugum hafi málin oft farið upp í loft í ágreiningi á vinnumarkaði. Það virðist því vera fyrir hendi einhvers konar kerfislegt vandamál sem menn átta sig samt sem áður ekki á hvert er.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks segir:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“

Jafnframt segir:

„Með aðgerðum sínum hyggst ríkisstjórnin einnig eyða þeirri pólitísku óvissu sem hefur verið of áberandi þáttur í íslensku þjóðlífi á undanförnum árum. Unnið verður að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar.“

Hér er greinilega verið að kalla eftir stefnumótun um sátt og samráð til lengri tíma. Það er klárlega þörf á því. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra, sem einn af stjórnarherrunum, hvað þeir hafi verið að gera varðandi langtímastefnumótun til framtíðar til að skapa sátt á vinnumarkaði.