144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

langtímastefnumótun um sátt á vinnumarkaði.

[15:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Einmitt, þetta var mjög góður fundur á samráðsvettvangi um aukna hagsæld þar sem nákvæmlega var verið að ræða þetta og skoða hvernig þetta gengur á Norðurlöndunum, hvers vegna þeim gengur miklu betur en okkur að halda sáttina og vera með langtímastefnumótun.

Það kemur líka mjög skýrt fram, í skýrslu McKinsey um Ísland, að langtímastefnumótun er ekki til staðar á Íslandi. Það er allt of mikill skotgrafahernaður, allt of lítil samvinna. Þeir nefna Danmörku sérstaklega sem land þar sem vel gengur að ná saman um langtímastefnumótun. En einmitt þar getur þriðjungur þingsins vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu sem undirbyggir það að sátt verður að vera um stefnumótun. Meiri hlutinn getur ekki þvingað hluti í gegn, getur ekki þvingað hluti í gegnum þingið. Þannig að það verður að vera víðtækara samráð og samstaða um langtímastefnumótun sem tekst þar.

Annars staðar á Norðurlöndunum eru (Forseti hringir.) til dæmis minnihlutastjórnir sem þýðir líka meiri samtakamátt. Er hæstv. fjármálaráðherra ekki tilbúinn að vinna í meiri sátt að þessu máli — (Forseti hringir.) og hvernig miðar þessu máli frá samráðsvettvangi í lög?