144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

langtímastefnumótun um sátt á vinnumarkaði.

[15:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það sem ég kom ekki að áðan var það að áhugi vinnumarkaðarins, og kannski frekar launþegamegin, hefur verið of takmarkaður á því að vinna að grundvallarbreytingu á þessu sviði, að koma með nýja umgjörð um vinnumarkaðinn. Það er alltaf sagt: Við þurfum að ganga í gegnum þessa lotu fyrst, svo skulum við breyta áherslunum, svo skulum við breyta fyrirkomulaginu. En gott og vel. Ef það er það sem þarf, að ganga frá kjarasamningum í eitt skipti í viðbót áður en við förum að gera það, þá verður það kannski bara að vera þannig, en það er samt áfangi og það verður bara að halda áfram að hamra þetta járn.

Á Norðurlöndunum — já þar eru menn í sumum tilvikum með töluvert annað verklag að hluta til, eins og hér er nefnt, vegna þess að þar eru minnihlutastjórnir. Já, Danir hafa þetta ákvæði um þjóðaratkvæði, en nota bene því hefur aldrei verið beitt, eða held ég í eitt skipti (Gripið fram í.) og það er vegna þess að menn gera ráð fyrir því að ef því verði beitt þá kunni það að bitna á mönnum síðar. Það gilti reyndar ekki hér á Íslandi í öðru máli, sem að sumu leyti til er sambærilegt, (Forseti hringir.) menn trúðu því ekki að því yrði nokkru sinni beitt vegna þess að menn gætu (Forseti hringir.) átt von á því að aðrir beittu því síðar. En því miður fór það ekki þannig í því tiltekna máli.