144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

tollar og matvæli.

727. mál
[15:48]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna fyrirspurn hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um þetta mál og ég verð að segja að mér finnast svör hæstv. landbúnaðarráðherra heldur rýr með vísan til fyrirspurnarinnar í heild. Það liggur fyrir að fjölmörg dómsmál hafa fallið um gildi þeirrar framkvæmdar sem viðhöfð hefur verið við úthlutun á hinum svokölluðu tollkvótum, þ.e. sú framkvæmd hefur verið við lýði að ráðherra hafi það í hendi sér hvernig úthlutun á tollkvótum fer fram. Sú framkvæmd er í andstöðu við 77. gr. stjórnarskrárinnar eins og hæstv. ráðherra kom örlítið inn á í svari sínu.

Mér finnst undarleg sú leið sem hann boðar hér að það komi til skoðunar að fella úr 3. mgr. 65. gr. þann möguleika að hlutkesti ráði, því ég held að dómarnir fjalli nú einmitt um að það sé ekki vandamálið. Ég vil hins vegar nefna það að hugmyndafræðin að baki þessu kerfi, hugmyndafræðin sjálf, er gölluð, algerlega gölluð. Atvinna einnar stéttar í landinu verður ekki varin með þeim hætti sem hér er gert með því að skerða atvinnufrelsi annarra, innflytjenda, (Forseti hringir.) á kostnað neytenda.