144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

tollar og matvæli.

727. mál
[15:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin, en ég verð að viðurkenna að ég stend hér eiginlega dálítið í lausu lofti með tilliti til fyrri spurningar minnar vegna þess að ég gat ekki greint það í svari hæstv. ráðherra að það ætti að skoða þennan dóm héraðsdóms um útboðsgjaldið og þá með hvaða hætti það yrði nýtt, þar sem dómurinn telur að þetta sé skattur í skilningi laga og ráðherrann hafi fengið of mikið vald, ef við getum orðað það svo.

Mig langar því bara að spyrja aftur: Er það eingöngu þar sem landbúnaðarráðherra, og þá ráðuneytið, er að íhuga að fella brott þetta með hlutkestið en halda hinu inni, en það er þó sá þáttur sem dæmdur var ólöglegur? Ég bið því hæstv. ráðherra að fara nánar í það. Hæstv. ráðherra sagði jafnframt um magntolla og verðtolla að magntollar væru í krónutölum og hefðu rýrnað töluvert frá því að þeir voru settir á árið 1995. En mig langar þá jafnframt að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að magn- og verðtollar eru settir á til að verja innlenda matvöru sem framleidd er hér á landi, en þegar um er að ræða vöru sem ekki er framleidd hér á landi ber hún engu að síður jafnt magntolla sem verðtolla, og því spyr ég hæstv. ráðherra: Stenst það? Stenst það þau lög sem sett hafa verið um magntolla og verðtolla sem eiga að vernda innlenda framleiðslu, að þegar um er að ræða vöru sem ekki er til og ekki framleidd á Íslandi þá skuli hún engu að síður beitt bæði magntollum og verðtollum?