144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[16:20]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þegar landið logar í átökum á vinnumarkaði og samfélagið einkennist af sundrungu hefur stjórnarmeirihlutinn hér ákveðið að leggja til hliðar öll þau þörfu og góðu mál sem við getum unnið að saman á Alþingi. Til hvers? Til þess að hefja hér stríð um umhverfismál og virkjunarframkvæmdir gegn rammaáætlun sem við náðum öll samstöðu um á síðasta kjörtímabili. (VigH: Nei.)

Ég harma það, virðulegur forseti, að ríkisstjórnin skuli ekki hafa neinn skilning á því forustuhlutverki sem hún á að gegna hér í samfélaginu, á því sameinandi afli sem þörf er fyrir í pólitískri forustu í landinu og að hún skuli ekki ætla að beina störfum þingsins að kjaramálunum og hinum mikilvægu lífskjaramálum heimilanna í landinu sem brenna á tugþúsundum Íslendinga. Hún ætlar að setja pólitíska duttlunga sína og löngun til stríðsrekstrar á dagskrá og láta allt annað víkja (Forseti hringir.) en það, meira að segja kjör heimilanna í landinu. (BirgJ: Heyr, heyr.)