144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[16:41]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að halda áfram með það sem ég nefndi áðan, bls. 85 í McKinsey-skýrslunni þar sem talað er um hvað þurfi að gera til að laga ástandið í viðskiptalífinu á Íslandi eftir hrunið. Þar kemur fram að til þurfi aukna pólitíska samstöðu, samráð og samvinnu á þeirri línu sem hefur tekist að gera annars staðar á Norðurlöndum og er Danmörk sérstaklega nefnd, en þar getur minni hluti þingmanna vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu sem þýðir að þeir þurfa að leita samstöðu. Ísland mundi hagnast mjög mikið á slíku. Þetta kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þetta er það sem ríkisstjórnin segist ætla að gera, en þetta er ekki það sem ríkisstjórnin er að gera. Nú eru deilur á vinnumarkaði. Ríkisstjórnin hefur haft tvö ár til þess að koma með einhverja heildstæða löggjöf og líta meira til annarra Norðurlandaþjóða, hvernig þeim hefur tekist að halda betri samstöðu á vinnumarkaði. Það er ekki komið. Og nú þegar loga illdeilur á vinnumarkaði á að fara að setja inn í þingið annað deilumál sem ekki er samstaða um, (Forseti hringir.) eitt stórt átakamál, í stað þess að fara að huga að því (Forseti hringir.) að vinna þetta í sátt. (Forseti hringir.)

(Forseti (ValG): Hv. þingmaður er beðinn um að virða ræðutíma.)