144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[16:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég kippi mér nú ekki upp við það hvernig hv. þm. Vigdís Hauksdóttir fer með sannleikann eða hvernig hún gælir við íslenska (Gripið fram í.) tungu. Mér er satt að segja alveg sama um það þó að hv. þingmaður endurskíri bók sem ég skrifaði hér um árið, (VigH: Nei.) en ég mótmæli því harðlega að hv. þingmaður (Gripið fram í.) ræni mig fjórum árum af ævi minni með því að kalla hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur utanríkisráðherra á fyrra kjörtímabili. Þá er mér eiginlega nóg boðið. Í sjálfu sér ætti mér að vera sama um það þó að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefði ekki lesið bók mína vel, en það hefur stundum komið fram í máli hennar — og kemur kannski engum á óvart — að hún snúi þar hlutunum algerlega á haus. (VigH: Nei.) Ég er nú ekki að hlífa sjálfum mér í bókinni, m.a. í þeirri frásögn sem hv. þingmaður gerði að umræðuefni þar sem hún sagði að ég hefði sagt (Gripið fram í.)að VG hefði selt sannfæringu sína gagnvart ESB fyrir virkjunarkosti sem voru (Gripið fram í.) teknir út. Það var nefnilega þveröfugt. Þar ræðst ég á sjálfan (Forseti hringir.) mig og sveifla svipunni þannig að ég (Forseti hringir.) er sjálfur blóðrisa og segi að það var það (Forseti hringir.) sem ég vildi, en VG stóð fast á sannfæringunni og vildi það ekki,(Forseti hringir.) en ég var til í þau hrossakaup þó að ég vilji engin fegurðarverðlaun út á það. (Gripið fram í.)