144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[16:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er orðið ljóst af þessari umræðu í hvers konar ógöngur ríkisstjórnin er að tefla þingstörfum með átakasækni sinni. Maður hlýtur að spyrja hvenær sé komið nóg fyrir þessa ríkisstjórn. Hvenær er hægt að segja: Nú ætlum við að leita samstöðu, nú ætlum við að reyna að finna saman leiðina áfram? Verður aldrei komið að þeim vegamótum í sögu þessarar ríkisstjórnar? Það er líka orðið alveg ljóst af umræðunni að framganga ríkisstjórnarinnar í þessu máli, og þá ríkisstjórnarflokkanna, hefur tafið meðferð virkjunarkosta sem gætu núna verið orðnir tilbúnir til nýtingar og sú framganga tefur enn vinnslu virkjunarkosta sem full samstaða gæti verið um að ráðast í. Það er núna sem verður ljóst hvert tjón er af þeirri átakasækni. Menn komast ekkert áfram, (Forseti hringir.) eru fastir, komast hvorki lönd (Forseti hringir.) né strönd. Geta ekki skapað (Forseti hringir.) störf og geta ekki vísað veginn út úr átökum í samfélaginu.