144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:21]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki ein þeirra sem óttast endilega að selja þessa hluti í Arion banka og Íslandsbanka til lengri tíma og kannski einhvern lítinn hlut í Landsbankanum. Ég tel engu að síður alls ekki tímabært að gera það á næstunni. Ástæðan er sú að menn hafa ekki enn lokið við uppgjörið á þrotabúunum. Það er fleira í umgjörðinni sem ég tel að verði til þess að við fengjum ekki besta verðið fyrir þessar eignir á þessum tímapunkti í því efnahagsumhverfi, þ.e. umgjörðinni um krónuna, sem við búum við.

Virðulegi forseti. Ég deili hins vegar með hv. þingmanni ákveðnum áhyggjum af því hvers vegna menn keyra það svona stíft fram undir þessum kringumstæðum að leggja sjálfa Bankasýsluna niður. Ég átta mig ekki alveg á þeirri vegferð. Ég velti því fyrir mér, eins og hv. þingmaður, hvað búi að baki. Ég er ósammála því, sem fram kemur í frumvarpinu, að núna sé rétti tíminn, miðað við það sem upphaflega var lagt af stað með, til að leggja hana niður. Verkunum, tiltektinni eftir hrunið, er ekki alveg lokið af því að þrotabúin standa enn óuppgerð.

Virðulegi forseti. Ég deili þessum áhyggjum. Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra — nei, hv. þingmann, hann er svo ráðherralegur hér á hliðarlínunni, það fór honum svo vel að vera ráðherra — hvernig hann sjái fyrir sér að við höfum hlutina til lengri tíma. Bankasýslan átti alltaf að vera bráðabirgðafyrirbæri, þar til málin væru uppgerð, en hvernig sér hann þetta fyrir sér? Er hann sammála mér í því að Bankasýslan hafi sannað ágæti sitt og sé hugsanlega fyrirbæri (Forseti hringir.) sem við eigum að halda í til lengri tíma eða að minnsta kosti sé ekki tímabært að leggja hana niður á þessum tímapunkti?