144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:25]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það er alls ekki tímabært að mínu mati að fara í sölu á eignarhlutum í bönkunum. Ég held að við verðum fyrst að sjá hvernig fer með uppgjör á þrotabúunum, allan frágangurinn á því máli öllu saman, þannig að menn sjái með hvaða hætti bankaumhverfið mun þróast til lengri tíma.

Ég held líka að það sé algjört glapræði við þessar aðstæður að fara að leggja Bankasýsluna niður og setja á fót ráðgjafarnefnd ríkisins sem mun vera skipuð beint af ráðherra, ekki síst í ljósi þess að þegar uppgjörið í kringum þrotabúin mun eiga sér stað munu gríðarlegar eignir skipta um hendur í samfélagi okkar. Það er ekki sama hvernig það verður gert og það er ekki sama hvernig ríkið hegðar sér í því sambandi öllu saman. Ég tel þar af leiðandi alls ekki tímabært að menn afnemi þann millilið sem Bankasýslan er.