144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu. Margir stjórnarandstæðingar hafa verið mjög persónulegir í þessari umræðu og er lítill bragur á því. Ég ætla ekki að endurtaka það, hv. þingmaður á það ekki skilið. Hann fór efnislega yfir málin en ég skil það samt ekki alveg því að það er eins og hv. þingmaður hafi ekki alveg farið yfir málið.

Í fyrsta lagi: Bankasýslan, það eru tveir sem vinna þar, síðan er ritari og þriggja manna stjórn. Stjórnin þar er skipuð án tilnefningar. Fjármálaráðherra skipar stjórnina. Ef menn eru ósáttir við að það sé gert í ráðgjafarnefndinni þá er það nákvæmlega þannig sem það er gert hjá Bankasýslunni. Hér er ekki um það að ræða að við séum að taka ákvörðun um einkavæðingu á bönkum. Að vísu var Bankasýslan sett á laggirnar til að undirbúa það, en það er allt ráðgefandi, alveg eins og verður með ráðgjafarnefndina, hún gerir tillögur. Ef hv. þingmaður les 4. gr. um verkefni Bankasýslunnar þá snýst þetta allt um að það er verið að gera tillögur og vísa ég sérstaklega í g-, i- og j-liðinn.

Virðulegi forseti. Það er ekkert um það að ræða að verið sé að breyta því fyrirkomulagi efnislega. Það er bara ekki rétt. Í fyrsta lagi er ekki verið að taka ákvörðun um sölu, það er ekki verið að því. Hæstv. fjármálaráðherra tilnefnir menn í stjórn Bankasýslunnar alveg eins og í ráðgjafarnefndina, nákvæmlega eins. Gert er ráð fyrir því í þessum lögum, þegar farið verður að selja, ef og þegar, að Ríkiskaup muni sjá um það, sem er sú stofnun sem við treystum best þegar kemur að innkaupum og útboðum hjá ríkinu. En það er auðvitað langur ferill.

Ég get ekki séð annað, virðulegi forseti, en að ræða og andstaða hv. þingmanns sé byggð á fullkomnum misskilningi. Enda veit hv. þingmaður, hann var í síðustu ríkisstjórn, að ef menn til dæmis vilja ekki að (Forseti hringir.) bankastofnunin fari með eignarhluta þá geta menn haft það þannig, eins og gert var í síðustu ríkisstjórn.