144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðustu spurninguna segi ég alveg hreinskilnislega: Ég veit það ekki. Ég get ekki skýrt það fyrir hv. þingmanni. Ég var í ríkisstjórninni en ég minnist þess ekki hvaða ástæður lágu þar til grundvallar, en áreiðanlega er ég viss um að þáverandi fjármálaráðherra, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, getur upplýst um það og vafalítið hlýtur það að liggja fyrir með einhverjum hætti. Ég efast heldur ekki um að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur fyrir löngu farið yfir þetta í viðkomandi nefnd.

Það breytir engu um það að Bankasýslan hefur starfað ákaflega vel og hún hefur sinnt skyldu sinni frábærlega, finnst mér. Ég var á köflum ekki alltaf sammála þeirri stefnu sem hún hefur fylgt en mér sýnist hún hafa gengið upp. Ég reyndi að rekja það hér aðeins með tölum.

Að því er varðar muninn á núverandi stjórn Bankasýslunnar og hvernig hún er skipuð annars vegar og hins vegar ráðgjafarnefndinni er það verulegur munur. Ég nefni sérstaklega að í 8. gr. kemur alveg skýrt fram, sem skiptir máli fyrir mig og hefur verið ástæða þess að ég hef látið svolítið að mér kveða í umræðum um þessi mál, að ráðherrann getur að eigin frumkvæði sett hlutina í söluferli, það er bara svoleiðis. Mér finnst það afturför og ég tel að það sé allt of mikil nálægð við hið pólitíska vald. Ég er hræddur við slíkt nábýli, ég er hræddur við það af ýmsum ástæðum.

Það svarar kannski þeirri fyrirspurn sem hv. þingmaður beindi til mín um muninn á stjórninni. Mig skiptir ekki máli hvernig þóknanirnar eru ákvarðaðar en klárt er að þessi þriggja manna ráðgjafarnefnd er skipuð af ráðherranum og það eru eiginlega engar skorður reistar við samskiptum þeirra. Í dag er það þannig að ráðherrann getur ekki komið neinum skipunum eða tilmælum á framfæri til stjórnar Bankasýslunnar öðruvísi en að það verði gert opinbert og það er gagnsæið. Það er kannski hægt að auka það gagnsæi en það er þó meira gagnsæi en er í þessu.