144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar hér um hlutina eins og hann vill hafa þá en ekki eins og þeir eru. Hér er Bankasýsla, þetta er tveggja manna stofnun, það eru þrír í stjórn, hún hefur ekkert vald. Hún kemur bara með tillögur til ráðherra alveg eins og ráðgjafarnefndin. Hún á að hafa eftirlit með eigendastefnunni. Eigendastefnan er ákvörðuð af ráðherra. Ef þetta verður samþykkt getur hæstv. fjármálaráðherra — og það veit hv. þingmaður, fyrrverandi hæstv. ráðherra, búinn að vera hér svo lengi sem elstu menn muna — ekkert selt eignarhluti, hvorki í bönkum né neinu öðru án þess að það fari í gegnum þingið. Hv. þingmaður veit það og ég skil ekkert af hverju hv. þingmaður talar með þessum hætti. Þetta er algjörlega út í hött; eins og þetta sé bara gert á skrifborði ráðherra, hann getur ekki selt nokkurn skapaðan hlut nema þingið sé búið að ákveða það.

Reyndar er í þessu frumvarpi talað um að miklu fleiri aðilar eigi að koma að málum, koma með umsagnir og annað slíkt, en gert er í lögum um Bankasýsluna. Hv. þingmaður var í síðustu ríkisstjórn. Var farið eftir því sem Bankasýslan sagði um sparisjóðina? Var farið eftir því? Hv. þingmaður hlýtur að koma hér upp og útskýra þetta, vegna þess að hann var í síðustu ríkisstjórn.

Hér var Bankasýsla, sem er búin að kosta 400 milljónir á síðustu sex árum, búin að vera mikil mannaskipti á öllum þessum tíma. Hann hlýtur að svara þessum spurningum: Af hverju var ekki farið eftir tillögum Bankasýslunnar með sparisjóðina? Af hverju fór Bankasýslan ekki með eignarhluti í stærstu fjármálafyrirtækjunum? Af hverju? Hér kemur hv. þingmaður og segir: Þetta er svakalegt. Við erum að taka armslengdir og allt þetta.

Síðasta ríkisstjórn gerði ekkert með Bankasýsluna. Og hv. þingmaður verður að útskýra það ef hann telur að þetta hafi gengið svo rosalega vel og hún hafi staðið sig svona vel. Var það vegna þess að hún lét þetta yfir sig ganga?