144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:44]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef bara ekki heyrt þá hugmynd áður að til álita hefði komið að fela Bankasýslunni samninga við kröfuhafa. Ég held að það hafi aldrei dottið neinum í hug á þeim tíma, enda um að ræða grundvallarskuldbindingu ríkisins og þar var um að ræða gríðarlega stóran hluta ríkisútgjalda. Hugmyndin um armslengd frá hinu pólitíska valdi hefur aldrei snúist um að afhenda einhverjum embættismönnum eða einhverjum stjórnendum ákvörðunarrétt um grundvallaratriði og tilvistarspurningar þjóðarinnar, eins og það hvað við þyrftum að borga til erlendra kröfuhafa. Mér fyndist satt að segja alveg fráleitt að fela stofnuninni slíkt verkefni.

Ástæðan fyrir því að armslengdarhugmyndin er búin til er til að tryggja armslengd hins pólitíska valds frá viðskiptalífinu á Íslandi. Það er það sem er svo mikilvægt, og það sé ekki pólitíkusa að ákveða hvaða fyrirtæki lifi og hvaða fyrirtæki deyi. Þess vegna hefur svona fyrirtækjum og stofnunum verið komið á fót (Forseti hringir.) um alla Evrópu og þess vegna eru þær enn við lýði um alla Evrópu, en það er bara (Forseti hringir.) á Íslandi einhverra hluta vegna sem menn vilja leggja þær af.