144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þingmaður skauta ansi létt í gegnum þessa umræðu. Hann nefndi kaupauka. Hv. þingmaður veit að við erum hér með frumvarp um kaupauka. Það er ekki þannig að fjármálaráðherra geti ákveðið kaupauka, við erum að ræða það. Þetta er mun lægra en þakið sem er hjá ESB, en ég get alveg haft alveg þá skoðun að kaupaukar séu mjög varhugavert tæki í bönkunum, við skulum ekki ræða það hér. En ég skil ekki af hverju verið er að væna hæstv. fjármálaráðherra um að ætla að fá einhver slík völd í sínar hendur. Hann fær þau ekki, það er lagafrumvarp sem liggur fyrir þinginu.

Hv. þingmaður var í síðustu ríkisstjórn og sagði sjálfur fyrir hv. þingnefnd í beinni útsendingu að þegar kom að SpKef og Byr — og hann kallaði þá zombie-banka og ég held að það hafi verið hárrétt hjá hv. þingmanni — að það var allt inn í fjármálaráðuneytinu þrátt fyrir að eignarhlutirnir áttu samkvæmt lögum að vera í Bankasýslunni. Hann veit líka af því að menn tala hér um það, án þess að ég ætli að gera lítið úr því góða starfsfólki sem er hjá Bankasýslunni, það hvarflar ekki að mér í eina sekúndu, það var að vísu annað starfsfólk þá, það var svolítið mikil starfsmannavelta, að þeir komu fram með tillögu um framtíð sparisjóðakerfisins. Hún var kynnt fyrir hv. viðskiptanefnd. Síðasta ríkisstjórn gerði ekkert með það. Síðan koma sömu aðilar sem voru í síðustu ríkisstjórn og tala um að það sé stórkostlegt að hafa þessa stofnun því það tryggi armslengdarfjarlægð. Reynslan sýnir okkur bara allt annað. Hv. þingmaður hlýtur þá að upplýsa okkur um það af hverju við settum þessa stofnun á fót, af hverju við settum þessi lög um stofnunina og af hverju menn fóru síðan ekki eftir því þegar þeim hentaði.