144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram í þessari umræðu að ekki sé eðlilegt að eignarhlutur ríkisins í fjármálafyrirtækjum og eftirlit með fjármálastofnunum sé á sömu hendi. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart því að með þessu frumvarpi er verið að færa þessi mál öll í fangið á ráðherra, mál sem búið var að færa frá ráðherra til sjálfstæðrar stofnunar, Bankasýslunnar, með sjálfstæðri stjórn. Ef menn hafa lagt upp með að spara þá virðist sparnaðurinn ekki vera mikill í heildarsamhenginu, kannski 40–50 millj. kr. á móti veltu fjármálafyrirtækja upp á 250–300 milljarða. Talað var um að það mundu kannski bætast við þrjú stöðugildi sérfræðinga í ráðuneytinu í framhaldinu og ráðgjafarnefndin kostar auðvitað sitt. Sér hv. þingmaður fram á að það verði einhver sparnaður þegar upp er staðið, kannski sáralítill sem enginn í samhengi hlutanna? Hversu mikið er þarna undir? Faglegi þátturinn er í raun og veru í molum því það er mikil afturför að færa þetta upp í hendur á fjármálaráðherra hverju sinni og gera þessa hluti alla tortryggilega. Hvað er þá unnið með þessu frumvarpi? Það virðist líka vera í mótsögn við vilja samstarfsflokksins. Á flokksþingi framsóknarmanna ályktuðu menn um að ekki væri tímabært að leggja niður Bankasýslu ríkisins, hún hefði skilað sínu hlutverki vel. Í frumvarpinu er ýjað að því að selja allt að 30% hlut í Landsbankanum og það lágu líka fyrir mótmæli á flokksþingi framsóknarmanna um að það ætti ekki að gera.

Mig langar að heyra skoðanir hv. þingmanns á því hvað mönnum gangi til með að koma með þetta mál í raun og veru í ósætti við eigin samstarfsflokk.