144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að ég skil ekki hinar fjárhagslegu forsendur sem lagðar eru til grundvallar í kostnaðarmati. Þar er talað um að sparnaður geti orðið og kostnaður sem núna er 90–100 millj. kr. geti farið niður í 50. Rekstrarkostnaður Bankasýslunnar er núna 50 millj. kr. miðað við núverandi starfsmannahald og ég sé ekki að hægt sé að fækka starfsmönnum nokkurn skapaðan hlut. Þvert á móti mun við þessa breytingu þurfa að leggjast í mikinn sérfræðikostnað sem ekki er gert ráð fyrir neins staðar vegna þess að það þarf að byggja upp sérfræðiþekkingu hjá þessum starfsmönnum í ráðuneytinu. Samkvæmt frumvarpinu sjálfu er viðurkennt að þeir mega ekki gera neitt annað innan ráðuneytisins. Þeir mega ekki snerta á eftirliti með fjármálafyrirtækjum. Þeir verða algerlega að helga sig þessu verkefni þannig að engin rök eru færð fyrir því að hægt sé að spara peninga með þessu. Það gengur ekki upp þegar maður les frumvarpið til enda.

Það sem ég hef varað við varðandi samtengingu þess að hafa eftirlitsvaldið og hlutabréfið í sama ráðuneyti er auðvitað þau dæmi sem við höfum. Þetta hefur alltaf verið mjög slæmt og alltaf leitt til ófarnaðar. Ég hef deilt með þingheimi persónulegri sögu minni sem síðasti fulltrúi ríkisins í stjórn Búnaðarbankans. Það var mjög skrýtið að vera kjörinn af viðskiptaráðuneytinu og svo komu starfsmenn viðskiptaráðuneytisins sem voru hvort veggja í senn handhafar hlutabréfsins og eftirlitsaðilar með bankanum og gerðu athugasemdir við það hvernig við tókum ákvarðanir vegna þess að þeir voru ekki sáttir við lagatúlkanir okkar. Það var mjög skrýtin staða og ég óska engum sem situr í stjórn fjármálafyrirtækis að vera í þeirri stöðu. Við ættum að vera vaxin upp úr því að láta okkur detta í hug að slíkt sé gott. Ég skil ekki að menn geti lagt fram svona frumvarp árið 2015 og látið eins og ekkert hafi gerst í þróun stjórnarhátta fyrirtækja síðustu 80 árin og saga samkrulls stjórnmála og fjármálakerfis á Íslandi (Forseti hringir.) sé bara til eftirbreytni, það sé um að gera að byrja leikinn aftur.