144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:22]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ef frumvarpið verður samþykkt og verður að lögum mun það gerast að Bankasýsla ríkisins — hún hefur verið að sýsla með eignir ríkisins í bönkunum síðastliðin tæp sex ár og öll sérþekkingin er þar innan húss. Það fólk er í rauninni með þetta í fanginu og það er úti í miðri á. Fram undan er einkavæðing, þ.e. sala á þeim eignarhlutum sem fólk í Bankasýslunni er búið að vera með í fanginu. Með þessu lagafrumvarpi núna á að segja að það fagfólk, sem er með sérþekkinguna og er búið að vera með þetta á sinni hendi og í fanginu í sex ár, eigi að rétta þetta til ráðuneytisnefndar sem er síðan í fanginu á ráðherra.

Hver er tilgangurinn með því? Hvar kemur það fram í greinargerðinni með frumvarpinu hver tilgangurinn sé? Jú, það sparar peninga. Það sparar um 40–50 millj. á ári. En horfum þá á það hvað þetta er mikill hluti af því fé eða þeim eignum sem Bankasýslan og þessi ráðgjafarnefnd eru að sýsla með. Þetta er einn á móti 6 þúsund. Þetta er 6 þúsund sinnum lægri upphæð, sem eru þessi árlegu laun og einnig það sem þau eru að sýsla með.

Og hvað ef þessi nýja ráðgjafarnefnd hefur ekki jafn góða sérþekkingu og Bankasýslan hefur aflað sér núna í sex ár? Hvað þurfa hún og starfsmennirnir að missa mikið í ána? Hvað þurfa þeir að missa mikið frá sér, hvað þurfa þeir að taka mikið af verri ákvörðunum varðandi einkavæðinguna til að kostnaðurinn verði miklu meiri en að hafa það fólk sem er búið að vera með þetta í fanginu í sex ár? Þetta er ekki góð stjórnun og þetta getur kostað miklu meira en menn vilja meina að Bankasýslan kosti umfram það sem ráðuneytisnefndin telur. Takið eftir því, það er ráðuneytið, fjármálaráðuneytið sem kostnaðarmetur þetta sjálft. Þá er það spurningin, þeir eru með frumvarp um hvernig þeir eigi að færa umsýsluna með eignum ríkisins, sem eru 250–300 milljarðar, inn í ráðuneytið og það sjálft kostnaðarmetur það. Við hér á Alþingi höfum ekki tækifæri til að vera með sjálfstætt kostnaðarmat á því. Margir hafa sagt það hérna í umræðunni að kannski er þessi sparnaður ekki einu sinni til af því að það er fólk í ráðuneytinu sem þarf að taka við þessum bolta.

Bara svo að við skiljum þessar tölur, þessar tölur þýða það að þetta eru í rauninni verðmæti, eignir ríkisins í bönkunum upp á þrjá nýja Landspítala og þá á að afhenda úr hendi fagfólks, sem hefur verið með þetta í höndunum í sex ár, rétt fyrir einkavæðinguna í hendurnar á ráðuneytisnefnd sem er í rauninni í fanginu á ráðherra. Hvað meina ég þegar ég segi: „Í rauninni í fanginu á ráðherra?“ Í lögum um Bankasýslu ríkisins sem á að leggja núna niður segir, með leyfi forseta:

„Allar meiri háttar ákvarðanir skal bera skriflega undir stjórnina til samþykktar eða synjunar.“

Stjórn Bankasýslunnar getur samþykkt eða synjað meiri háttar ákvörðunum frá ráðherra en hann getur þó í undantekningartilfellum knúið þær í gegn en þá þarf hann að gera það. Hann er í rauninni algerlega með taumhaldið á því hvernig farið er með þessa eignarhluti, andvirði þriggja nýrra Landspítala ef frumvarpið verður samþykkt. Hann getur riðið hestunum upp úr ánni eins og honum sýnist. En, þá er manni sagt, nei, það er ekki alveg satt, hann getur ekki alveg gert það eins og honum sýnist. Jú, hann getur það í rauninni. Hann þarf aftur á móti að bera hlutina undir hina og þessa aðila, en hann ræður á endanum, eins og kemur skýrt fram í frumvarpinu, þ.e. um ákvörðun um sölumeðferð og eignarhluta. Ráðherrann getur að eigin frumkvæði, með leyfi forseta, „tekið ákvörðun um að hefja sölumeðferð einstakra eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.“ Hann þarf að vísu að gera greinargerð og leggja fyrir nefndir þingsins, leita umsagnar frá ráðgjafarnefndinni og leita umsagnar frá Seðlabankanum. Í greinargerð ráðherra verða að koma fram ákveðnir hlutir og svo verða nefndir Alþingis að fá hæfilegan frest til að gera athugasemdir, athugasemdir takið eftir, við efni greinargerðarinnar. Að liðnum þeim hæfilega fresti, sem virðist ekki vera tilgreindur hvað er langur, þannig að það er ráðherra sjálfur sem ákveður það eflaust, „skal ráðherra taka ákvörðun um hvort sölumeðferð eignarhlutarins verði hafin í samræmi við efni greinargerðarinnar. Ráðherra getur í ákvörðun sinni gert breytingar á einstökum þáttum í fyrirhugaðri sölumeðferð, m.a. að teknu tilliti til athugasemda fjárlaganefndar Alþingis …“ en þarf ekki að gera það, getur gert breytingar við þetta allt saman. Ráðherra hefur þetta algerlega í hendi sinni. Ef frumvarpið verður samþykkt og fagfólkið sem er búið að ríða hestinum út í miðja á í Bankasýslunni afhendir andvirði þriggja nýrra Landspítala í hendurnar á þeirri ráðgjafarnefnd sem er í fanginu á ráðherra, þá getur ráðherra riðið þessum hesti upp úr ánni nákvæmlega eins og honum sýnist. Hann þarf að vísu að leggja hlutina fram fyrir fólk, en hann ræður, það er ekki góð stjórnsýsla heldur. Þetta er því ekki gott frumvarp. Ég geld mikinn varhuga við því að það verði samþykkt hér á Alþingi.