144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:40]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég ætla, með leyfi forseta, að vísa í 8. gr. frumvarpsins þar sem segir:

„Ráðherra skal leita umsagnar ráðgjafarnefndarinnar um fyrirhugaða sölumeðferð og skal umsögnin fylgja greinargerðinni. Ráðherra skal einnig leita umsagnar Seðlabanka Íslands um jafnræði bjóðenda, líkleg áhrif sölu á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða og laust fé í umferð. Í greinargerð ráðherra skulu m.a. koma fram upplýsingar um helstu markmið með sölu eignarhlutarins, hvaða söluaðferð verði beitt og hvernig sölumeðferð verði háttað að öðru leyti. Þar skal og tilgreina með almennum hætti þær kröfur sem gerðar eru til tilboðsgjafa og þær forsendur sem ráða munu mati á tilboðum og innbyrðis vægi þeirra. Nefndum Alþingis“ — ég ætla að biðja hv. þingmann að taka eftir hér, fyrir andsvar hans — „skal veittur hæfilegur frestur til þess að gera athugasemdir við efni greinargerðarinnar.“

Í 3. gr. þessa frumvarps kemur fram að eigendastefnan skuli vera opinber, hún skal birt opinberlega.

Ég fæ ekki betur séð en að í frumvarpinu sé bæði armslengdar og opinnar og gagnsærrar stjórnsýslu í sölumeðferð eignarhluta gætt til hins ýtrasta. Það má vel vera að gera megi einhverjar lagfæringar á því hvernig ráðgjafarnefnd er skipuð. En mig langar að hv. þingmaður svari því í seinna andsvari hvort hann telji að það sé ekki verið að koma til móts við armslengdina og opna og gagnsæja stjórnsýslu.

Svo ætla ég að bæta við einni spurningu fyrir hv. þingmann. Það þurfti að taka lán til að endurfjármagna bankakerfið. Í ríkisfjármálaáætlun kemur fram að það eigi mögulega að selja eignarhluta ríkisins(Forseti hringir.) til þess að greiða til baka þau lán. Finnst hv. þingmanni það ekki eðlileg leið?