144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

602. mál
[20:03]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum, sem snýr að eignarhaldi og lýðræði í lífeyrissjóðum. Ég er einn af flutningsmönnum en 1. flutningsmaður málsins er hv. þm. Pétur H. Blöndal og ég flyt þetta mál í fjarveru hans. Það er skemmst frá því að segja, svo því sé til haga haldið, að frumvarpið er hans og hann hefur fengið marga hv. þingmenn með sér á málið. Ég vil hvetja áhugamenn um efnahagsmál og þjóðmál og lífeyrissjóði að lesa greinargerðina með frumvarpinu sem er afskaplega vönduð og fróðleg og það er ekki oft sem maður fær jafn mikið af upplýsingum í jafn stuttum texta eins og þar er um að ræða.

Kjarni málsins er einfaldlega sá og út á það gengur frumvarpið að við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Lífeyrissjóður er eign sjóðfélaga sinna. Innstæða eða réttindi samkvæmt samningi um tryggingavernd eru eign rétthafa.“

Virðulegi forseti. Nú mundi kannski einhverjum finnast þetta algerlega sjálfsagt, sem það er, en þetta ákvæði er ekki svona skýrt í núgildandi lögum og þess vegna er lagt til að setja það í lögin. Það þýðir að hver og einn sjóðfélagi greiðir atkvæði og kýs í stjórnir á sjóðfélagafundum, aðalfundum viðkomandi lífeyrissjóða, í hlutfalli af þeirri eign sem hann á í hverjum lífeyrissjóði. Ég vek athygli á því að á bls. 5 í greinargerð frumvarpsins er kafli sem heitir „Hagsmunir heimilanna“ og þar segir að meðaleign hverrar fjölskyldu heimila á landinu sé um 24 millj. kr. í lífeyrissjóðakerfinu. Ef þetta mál næði fram að ganga þá mundi þessi eign koma fram, en hún gerir það ekki núna. Tilgangur frumvarpsins er sá að hverjum og einum sjóðfélaga verði veittar upplýsingar um verðmæti réttinda sinna og þeirra eigna sem standa að baki. Hv. 1. flutningsmaður og hv. þingmenn sem eru meðflutningsmenn telja að það mundi auka skilning fólks á gildi lífeyrissjóða og það er auðvitað afskaplega mikilvægt fyrir þjóðfélagið í heild sinni. Lífeyrissjóðakerfið er í grunninn mjög gott, hefur reynst vel og mun reynast afskaplega vel, sérstaklega þegar við verðum komin á þann stað að aldurssamsetning þjóðfélagsins hefur breyst, sem gerist mjög hratt, og þá þurfum við á þessum fjármunum að halda og í meira mæli en nú er, þannig að það er mikilvægt að fólk sé meðvitað um gildi lífeyrissjóðakerfisins.

Í greinargerðinni er saga lífeyrissjóða á Íslandi ágætlega rakin, ekki bara á Íslandi heldur frá upphafi. Eins og kemur fram í greinargerðinni var hér fyrir iðnbyltinguna nokkuð sem kallað er húsbóndaábyrgð, og eimir enn nokkuð eftir af henni, en hún fól það einfaldlega í sér að bóndi gat ekki rekið hjú út á gaddinn sem hafði starfað hjá honum alla starfsævina þegar það gat ekki unnið lengur. Hann varð að sjá því farborða til æviloka. Þetta breyttist eðli málsins samkvæmt mjög við iðnbyltinguna og félagslegur óróleiki og óöryggi fylgdi í kjölfarið. Sá sem reið á vaðið hvað þetta varðaði var Bismarck, fyrsti kanslari Þýskalands, sem stóð fyrir stofnun fyrsta lífeyriskerfisins. Það var gegnumstreymiskerfi sem er enn við lýði og má segja að það þýði að yngri kynslóðin greiði gegnum skattana sína lífeyrinn fyrir þá sem eldri eru. Það kerfi gengur ágætlega að því gefnu að þjóðir séu að fjölga sér og unga kynslóðin sé mun fjölmennari en eldri kynslóðin. Við sjáum hvernig staðan er í dag í Evrópu sem er að eldast mjög hratt og t.d. mun Þjóðverjum fækka að öllu óbreyttu um 20 milljónir til ársins 2060, þ.e. árið 2060 verða þeir 20 milljónum færri en þeir eru núna, fara úr 80 milljónum í 60 milljónum. Það sér það hver maður að á þeim tíma mun þetta kerfi verða gríðarlega íþyngjandi fyrir viðkomandi þjóðfélag.

Við erum ekki með gegnumstreymiskerfi, nema að hluta getum við sagt þegar kemur að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, þótt það sé ekki hugmyndin með þeim sjóði, heldur erum við með sjóðsöfnun. Það þýðir það að þeir sem eru í almennum lífeyrissjóði eru háðir ávöxtun lífeyrissjóðs sem viðkomandi einstaklingur er í. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er hins vegar með ríkisábyrgð eins og við þekkjum og það er mikill munur á hjá fólki eftir því hvort það er hjá opinberu sjóðunum eða almennu lífeyrissjóðunum.

Núna á Íslandi eru til dæmi um lífeyrissjóði þar sem sjóðfélagi á sína eign og það er ekki bara séreignarþátturinn heldur líka sá sem snýr að samtryggingunni. Lífeyrissjóður snýst ekki bara um framfærslu, þ.e. lífeyrisgreiðslur, heldur felst líka ákveðin trygging í þeim eins og er ágætlega rekið í greinargerðinni. Það hefur gengið held ég megi segja mjög vel almennt séð en hins vegar er til dæmi um einn lífeyrissjóð þar sem menn hafa talið að þetta hafi ekki gengið vel, eina dæmið um að þetta hafi ekki gengið vel, sem er Lífeyrissjóður verkfræðinga. Ég ætla ekki að fara nánar í það en í þeim lífeyrissjóði hafa kynslóðir svolítið tekist á. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því miðað við þá reynslu sem við höfum að þessi breyting muni gera að verkum að minna aðhald verði með rekstri lífeyrissjóðanna og að ekki gangi vel með ávöxtunina. Það er fátt sem bendir til þess ef við horfum til þeirrar reynslu sem við Íslendingar höfum. Hinir svokölluðu séreignarsjóðir hafa þetta fyrirkomulag eins og Frjálsi lífeyrissjóðurinn og eftir því sem ég best veit Íslenski lífeyrissjóðurinn og Almenni lífeyrissjóðurinn, á meðan hinir lífeyrissjóðirnir eru almennt með það fyrirkomulag að þeir sem skipa stjórnir eru tilnefndir annars vegar af atvinnurekendum og hins vegar af launþegum og það er náttúrlega arfur frá þeirri tíð sem húsbóndaábyrgðin var við lýði.

Eins og ég nefndi áðan hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal barist fyrir þessu máli og flutt það oft, ég held að ég hafi alltaf verið með honum á því frá því að ég kom á þing, en hann hefur unnið sleitulaust að því að reyna að koma þessu máli í gegn. Það hefur mætt ýmissi andstöðu, kannski út af óþarfaíhaldssemi. Eðli málsins samkvæmt skiptir máli að menn séu varkárir þegar kemur að breytingum á lífeyrissjóðakerfinu en við höfum augljóslega dæmi um að þetta hafi gengið vel og það eru í sjálfu sér engin efnisleg eða málefnaleg rök fyrir því að samþykkja ekki þetta frumvarp. Reyndar held ég að það sé gríðarlega stór þáttur og skipti miklu máli, eins og kemur fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, að fólk sé meðvitað um út á hvað lífeyrissjóðakerfið gengur. Og ekkert gerir fólk meira meðvitað en að það viti hvaða eign er á bak við það sem það greiðir í lífeyrissjóð. Við höfum örugglega öll heyrt oft og tíðum gagnrýni á lífeyrissjóðina og það er mikið verið að agnúast út í þá, oft mjög ósanngjörn gagnrýni, mönnum finnst eins og þetta sé einhver hít sem menn fái aldrei til baka úr. En á bak við þetta eru miklar eignir, að meðaltali um 24 millj. kr. á hvert heimili í landinu. Það er ekki bara lífeyrir sem við fáum greiddan út heldur líka trygging þannig að ef viðkomandi einstaklingur verður fyrir örorku fær hann greitt úr sínum lífeyrissjóði. Þótt það væri ekki annað en að fólk væri meðvitað um þetta mundi það gera alla umræðu um þessa hluti betri, jákvæðari og uppbyggilegri. Það er mjög mikilvægt. Að auki hljótum við að vera sammála um það, þegar við hugsum það, að þeir fjármunir sem lagðir eru í þennan skyldusparnað — því þetta er skyldusparnaður — hljóta að vera eign sjóðfélaga. Það getur enginn annar átt þá en viðkomandi einstaklingur sem greiðir inn í sjóðinn. Í kerfinu er innifalið ákveðið samtryggingarkerfi og það er ágætissátt um það, en það breytir því ekki að þau réttindi sem viðkomandi, fær, hvort sem það eru tryggingaréttindi eða lífeyrisgreiðsluréttindin ef við tölum á þann hátt um þetta, eru án nokkurs vafa eign viðkomandi sjóðfélaga. Og því fleiri einstaklingar sem eru meðvitaðir um þetta, því fleiri einstaklingar sem láta sig þetta varða, því fleiri einstaklingar sem setja sig inn í þessi mál, hvort sem það eru fjárfestingarmál eða annað slíkt, því upplýstara og betra þjóðfélag erum við með.

Ég er afskaplega ánægður með það að fá tækifæri til að fylgja úr hlaði frumvarpi hv. þm. Péturs H. Blöndals og legg til að því verði vísað til nefndar og vonast til þess að það nái fram að ganga sem allra fyrst. Best væri að það gerðist í vor en ég veit ekki hvort það muni ganga eftir en í það minnsta væri mikið gagn að því að fá umsagnir um þetta mál og einhvern tíma fer það í gegn, á því er enginn vafi og að mínu áliti því fyrr, því betra.