144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

mótun klasastefnu.

415. mál
[20:19]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar, sem finna má á þskj. 622, 415. mál, um mótun klasastefnu, þar sem Alþingi ályktar að fela ríkisstjórn Íslands að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta opinbera klasastefnu. Stefnan skuli fela í sér fyrirkomulag um hvernig hið opinbera efli stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið, rannsóknar- og menntastofnanir, sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila sem málið snertir. Stefnan skuli unnin í tengslum við stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2014–2016. Markmið nýrrar klasastefnu verði eftirfarandi:

a. að ráðstafa fjármunum til atvinnuuppbyggingar og byggðaþróunar með markvissum hætti,

b. að efla samvinnu vísinda og atvinnulífs,

c. að efla nýsköpun,

d. að efla samkeppnishæfni fyrirtækja, atvinnugreina og þjóðarinnar,

e. að efla hagsæld.

Ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshópsins fyrir árslok 2015.

Virðulegi forseti. Hér er lagt til að fengnir verði færustu sérfræðingar á sviði klasasamstarfs til að aðstoða við mótun opinberrar klasastefnu. Slík stefna hlýtur að fela í sér heildarmarkmið sem tiltekin eru hér og eru til þess fallin að ráðstafa fjármunum á markvissan hátt og nýta til þess kosti klasasamstarfs, bæði þess sem þegar hefur verið hrundið af stað og svo því sem skapa má grundvöll fyrir. Stefnt er að því að efla samvinnu vísinda- og atvinnulífs í meira mæli sem leiðir til og eflir nýsköpun. Þannig má vinna að því að virkja frekar þann kraft sem býr í minni og meðalstórum fyrirtækjum, efla samkeppnishæfni þeirra og með þverfaglegri vinnu og samvinnu má styrkja bæði hefðbundnar atvinnugreinar og sprota. Þannig getur heildarmarkmið slíkrar stefnu hjálpað okkur að nýta með skilvirkari hætti auðlindir þjóðarinnar og renna stoðum undir atvinnulíf á landsvísu og í erlendri samkeppni. Slík stefna, virðulegi forseti, er því til þess fallin að styrkja byggðir, atvinnuuppbyggingu og efla almenna hagsæld. Fordæmin eru sannarlega til staðar.

Opinber stefnumótun af þessu tagi hefur átt sér stað innan Evrópusambandsins, í Danmörku, í Noregi og svo eru dæmi um vel heppnað klasasamstarf hérlendis, ekki síst sjálfsprottið. Dæmi um það eru sjávarklasinn, íslenski jarðvarmaklasinn og fleiri væri hægt að nefna. Hér skortir hins vegar opinbera stefnu til að nýta þessi tæki til hins ýtrasta.

Til að svo megi verða er lagt til að kallaðir verði í þennan starfshóp færustu sérfræðingar á þessu sviði, sem hafa reynslu og þekkingu til að bera af hugmyndafræðinni og slíkri stefnu. Það sem hafa ber í huga er einkum þrennt. Í fyrsta lagi að tekið verði mið af þeirri reynslu sem aðrar þjóðir hafa, eins og t.d. Danir og Norðmenn hafa af sinni stefnu og þeirri leið sem þeir hafa valið. Í öðru lagi að við skipan starfshópsins verði ekki einvörðungu litið til samvinnunnar hérlendis heldur tekið mið af þeim möguleikum sem geta skapast til að efla okkur í alþjóðlegri samkeppni. Í þriðja lagi að tekið verði saman hvar fyrirliggjandi vinna á þessu sviði liggur og ekki síst að taka tillit eða mið af stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs.

Það má kannski segja að þess vegna sé þessari tillögu vísað beint til ríkisstjórnarinnar þar sem Vísinda- og tækniráð er á forræði hæstv. forsætisráðherra. Þá er mótun slíkrar opinberrar klasastefnu að finna í stjórnarsáttmálanum og því er þessi tillaga í fullu samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar er meðal annars lagt upp með að ýta undir fjárfestingu og fjölgun starfa hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, þar sem sérstök áhersla er lögð á vöxt útflutningsgreina og nýsköpun. Í stefnuyfirlýsingunni segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Nauðsynlegt er að auka framleiðni hér á landi og það er forsenda langtímahagvaxtar að skapa umhverfi sem hvetur til nýsköpunar í starfandi fyrirtækjum, opinberum rekstri og nýjum fyrirtækjum. Til að tryggja að fjárveitingar til rannsókna og þróunarstarfs nýtist sem best leggur ríkisstjórnin áherslu á að samhæfa rekstrargrunna og rekstrarumhverfi ríkisstofnana sem stunda rannsóknir og þróun. [...] Örva þarf samstarf og samlegð fyrirtækja til þess að vinna að stærri þróunarmálum einstakra greina, meðal annars með því að móta klasastefnu, bæta aðgengi sprotafyrirtækja að hlutafé og einfalda stuðningsumhverfið.“

Hér er því beinlínis, virðulegi forseti, lagt upp með að nýta hugmyndafræði klasastefnu, fyrirliggjandi þekkingu, auka kerfislega samhæfingu og nýta fjármuni með sem skilvirkustum hætti. Þessi hugmyndafræði er þekkt hér á landi og jákvætt starf hefur verið unnið þar að lútandi, eins og ég kom inn á áðan, og ekki einungis í því sjálfsprottna klasasamstarfi sem ég talaði um og við þekkjum helst og hefur sannað gildi sitt, heldur hefur ýmislegt verið jafnframt unnið á vettvangi hins opinbera. Þar nefni ég atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Rannís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem er leiðandi stofnun á sviði rannsókna og þróunarstarfs, en þar hefur verið haldið utan um fræðslu og miðlun þekkingar á þessu sviði og hefur verið gefin út leiðbeiningarhandbók um þróun og stjórnun klasa. Þar er meðal annars að finna skilgreiningu Michaels Porters á hugmyndafræðinni sem ég ætla að fá að lesa hér fyrir þá sem hafa óljósa hugmynd um út á hvað þessi hugmyndafræði gengur, með leyfi forseta:

Klasi er „landfræðileg þyrping tengdra fyrirtækja, birgja, þjónustuaðila, fyrirtækja í tengdum atvinnugreinum og stofnana á sérhæfðum sviðum sem eiga í samkeppni og einnig í samvinnu.“

Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur auk fræðslustarfs unnið að verkefnum um sóknaráætlun 2020 þar sem vinna og hugmyndafræði getur vel nýst og trúi ég að við mótun klasastefnu geti sú framtíðarvinna og sviðsmyndagerð sem þegar hefur farið fram í tengslum við þessa áætlun nýst mjög vel þar. Þá starfa viðurkenndir vottunaraðilar á Íslandi hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Rannís. En nokkrir klasar á Íslandi hafa þar hlotið bronsvottun frá evrópsku klasastofnuninni. Má þar nefna flugklasann á Norðurlandi sem er samstarfsverkefni fyrirtækja í ferðaþjónustu, sveitarfélaga og annarra stofnana á svæðinu, Edda rannsóknasetur, verkefni á vegum Rannís og Háskóla Íslands og fjölda aðila í samstarfi á vettvangi rannsókna, fyrirlestra og fræðaútgáfu. Rannsóknastofnun á sviði gervigreindar, eða vitvélar, sem er á vegum Rannís og Háskólans í Reykjavík og fjölda samstarfsaðila. Í sjávarklasanum er að finna samstarf um 60 félaga og stofnana í haftengdri starfsemi. Katla jarðvangur er samstarfsverkefni þriggja sveitarfélaga Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps og Rangárþings eystra. Svo er ríki Vatnajökuls samstarfsverkefni ferðaþjónustufyrirtækja á því svæði.

Ég ætla hér síðast að nefna íslenska jarðvarmaklasann, samstarfsverkefni fyrirtækja og stofnana á sviði jarðvarma á Íslandi undir klasastjórn Gekon, og svo GEORG sem er jarðvarmaverkefni, en það er opinber jarðvarmaklasi sem er tengdur Evrópusamstarfsverkefninu, og var stofnað 2009 og styrkt til sjö ára af Vísinda- og tækniráði.

Þau dæmi sem ég hef nefnt eru til marks um frumkvæði og þekkingu á sviði klasasamstarfs á Íslandi, aðallega sjálfsprottinna klasa í samstarfi fyrirtækja og stofnana, og nokkur verkefni á vegum opinberra stofnana. Í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu er jafnframt unnið ágætisstarf í þróun verkefna, og meðal annars í gegnum Nýsköpunarmiðstöðina og Rannís hefur hæstv. ráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, sýnt hugmyndafræðinni áhuga og skilning og jarðvarmaklösunum verðskuldaða athygli. Til að mynda ávarpaði hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra nýverið lokaathöfn heimsráðstefnu Alþjóðajarðhitasambandsins í Melbourne í Ástralíu fyrir stuttu og má lesa um það á vef ráðuneytisins þar sem kemur fram að ráðherrann lagði áherslu á mikilvægi samstarfs á alþjóðavísu við aukna nýtingu jarðvarma. Þar var og staðfest að heimsþing jarðvarmans verður haldið hér á Íslandi í Hörpu árið 2020.

Íslenski jarðvarmaklasinn hefur einnig staðið að alþjóðlegri jarðvarmaráðstefnu, nú síðast í Hörpu 2013, þar sem verndari ráðstefnunnar, herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var ræðumaður á þeirri ráðstefnu og ég sótti ásamt hæstv. þáverandi utanríkisráðherra og núverandi hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Á þá ráðstefnu mættu 550 manns frá 40 löndum. Næsta ráðstefna með slíku formi verður í Hörpu í apríl á næsta ári og er sú þriðja, en sú fyrsta var haldin árið 2010.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir allt það góða starf sem ég hef tæpt á tel ég að því þurfi að fylgja betur eftir og móta þurfi skýra opinbera klasastefnu. Í skýrsluúttekt á vegum Evrópusambandsins, og ætla ég að fá að segja nafn hennar hér á enska tungu, með leyfi forseta: Clusters are individuals, birtist opinber klasastefna til að mynda erlendum sérfræðingum, annars vegar í formi vaxtarsamninga á forræði iðnaðarráðuneytisins þar sem atvinnuþróunarfélög á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands úthlutuðu styrkjum til umsóknaraðila í þeim tilgangi að efla atvinnulíf á tilteknum svæðum. Hins vegar ákvað Vísinda- og tækniráð árið 2007 að skilgreina verkefni til sex ára, frá 2009–2015, samkeppnishæf á alþjóðavísu þar sem samvinna fyrirtækja, háskóla, stofnana og samfélagshópa væri lykilþáttur. Þrjú verkefni hlutu á endanum þessa styrki, en þau eru GEORG, jarðvarmaklasinn sem ég nefndi, vitvélar og Edda rannsóknasetur við Háskóla Íslands.

Í skýrslunni er leitast við að mæra árangur af þessu starfi, mikilvæg tengsl við heildarstefnumótun í hagrænu tilliti og uppbyggingu atvinnulífs. Þrátt fyrir að vaxtarsamningar séu mikilvægir í vinnu ráðuneytisins í þróun og uppbyggingu svæðalega séð er talið að þeir hafi takmörkuð tengsl og þýðingu fyrir heildarstefnuna. Ég held að í þeirri skýrslu birtist okkur kjarni máls um þörfina fyrir opinberri stefnumótun til lengri tíma. Það sama kemur fram í skýrslu um klasaverkefnin þrjú, að þau fá sömu niðurstöðu gagnvart heildarstefnumótun þó aðallega vegna þess að slík klasavinna er á tilraunastigi og vegna takmarkaðra fjármuna.

Rekja má klasahugmyndafræðina til útkomu bókar dr. Michaels Porters um samkeppnishæfni þjóða, en þess má geta að þessi sami Porter átti hugmyndina að íslenska jarðvarmaklasanum eftir heimsókn til Íslands árið 2009. Eftir útkomu þeirrar bókar var víða um heim farið af stað af miklum krafti með þessa hugmyndafræði, stefnu og rekstrarfyrirkomulag. Eftir um áratug var farið að meta árangurinn og var hann æði misjafn eftir því hvernig klasarnir voru byggðir upp og þar hafði stefna stjórnvalda meðal annars mikið að segja. Af skýrslunni má marka að einkum fjögur atriði hafi ráðið miklu. Í fyrsta lagi fjármögnun og þar virðist blönduð leið gefast best, og nú er ég að draga saman niðurstöður úr skýrslunni, þar sem fjármögnun opinberra aðila, sveitarfélaga og stofnana, og einkaaðila fyrirtækja í viðkomandi grein er blönduð saman. Í öðru lagi stjórnarsamsetning. Það er lykilatriði að stjórn viðkomandi klasa sé á hendi aðila úr atvinnulífinu að meiri hluta, þó með virkri þátttöku mennta- og rannsóknastofnana, auk opinberra aðila. Í þriðja lagi er það mótun stefnu til lengri tíma og eftirlit. Það er sem sagt mjög mikilvægt að stjórnvöld skapi stefnu og sýn á það hvernig hún á að líta út til lengri tíma. Í fjórða lagi er það alþjóðavæðing klasa og klasasamstarfs. Klasar eru kjörinn vettvangur til að finna samstarfsaðila erlendis á sama vettvangi.

Annars staðar á Norðurlöndum hefur þegar verið tekin upp opinber klasastefna og Norðmenn hafa farið mjög athyglisverða leið í uppbyggingu sinnar opinberu klasastefnu. Stefnan þar er unnin að frumkvæði þarlendrar ríkisstjórnar undir forustu tveggja ráðuneyta. Norðmenn skilgreina klasa sína í þrenns konar form, héraðsklasa, landsklasa og alþjóðlega klasa. Danir hafa sömuleiðis tekið upp opinbera klasastefnu, en danska mennta- og vísindaráðuneytið gaf út nýsköpunarstefnu í desember 2012. Þar kemur fram að framtíðarsýn danskra stjórnvalda er að styrkja samvinnu og smíða brýr milli vísindarannsókna, menntunar og nýsköpunar í atvinnulífinu með lausnir á sviði nýsköpunar í huga sem lykil að vexti og hagsæld.

Þessari þingsályktunartillögu um mótun klasastefnu er ætlað að móta slíkan farveg, vinnu við eflingu nýsköpunar og atvinnulífsins vítt og breitt um Ísland. Með opinberri klasastefnu er hægt að efla samvinnu vísinda- og atvinnulífs í þágu verðmætasköpunar sem leiðir af sér aukna framleiðni og hagsæld.

Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Sigrún Magnúsdóttir, nú hæstv. umhverfisráðherra, Þórunn Egilsdóttir, Karl Garðarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Haraldur Einarsson, Höskuldur Þórhallsson, Vigdís Hauksdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Frosti Sigurjónsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson. (Forseti hringir.)

Að svo mæltu, virðulegi forseti, legg ég til að tillagan gangi til hv. atvinnuveganefndar og fái þar tilhlýðilega meðferð.