144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Á síðustu árum hefur sú ánægjulega þróun orðið að hlutfall þeirra sem ljúka námi í framhaldsskóla hefur hækkað, og það gerðist meira að segja á krepputímum. Það var ekki síst vegna þess að stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og skólarnir lögðu mikið á sig til þess að geta haldið framhaldsskólunum opnum og veitt þar fleira fólki pláss til að ljúka námi á meðan atvinnuleysi fór upp, og var þetta verkefni kallað Nám er vinnandi vegur. Ég held að það verði áhugavert að skoða hvernig þessi þróun á eftir að verða í framhaldinu, ekki síst þegar maður heyrir af því út um land að til standi að sameina fjölda framhaldsskóla.

Ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra fyrir tæpum mánuði sem ekki hefur unnist tími til að svara og hér liggja líka inni beiðnir um sérstakar umræður um málefni framhaldsskólanna, bæði styttingu náms í framhaldsskólum en líka sameiningu skóla. Því það er auðvitað ekki alveg eðlilegt, herra forseti, að þingmenn frétti af fyrirhugaðri sameiningu Iðnskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans í gegnum fjölmiðla; og sveitarstjórnarmenn í Hafnarfirði virðist líka frétta af þeirri sameiningu í gegnum fjölmiðla.

Ég set líka alvarlegt spurningarmerki við það þegar ég er á ferð um landið og heyri í véfréttastíl að til standi að sameina ýmsa skóla út um land, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Menntaskólann á Ísafirði hugsanlega, Menntaskólann á Tröllaskaga eigi ýmist að sameina Verkmenntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Akureyri eða Framhaldsskólanum á Húsavík. Það er mikil umræða einhvers staðar í gangi. Sveitarstjórnarmenn spyrja þingmenn fregna og þingmenn spyrja hæstv. ráðherra fregna, sem verður ekki til svara í þessari viku en ég hefði mjög gjarnan viljað fá þessar fregnir staðfestar. Það er auðvitað alvarlegt mál, herra forseti, (Forseti hringir.) ef verið er að taka beinar ákvarðanir um menntastofnanir þjóðarinnar sem geta dregið (Forseti hringir.) úr námsframboði á framhaldsskólastigi án þess að það sé rætt eða kynnt hér á Alþingi.