144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það fer ekki fram hjá neinum að átök einkenna stjórnmálin þessi missirin. Það er sama hvert maður kemur, fólk hefur af því þungar áhyggjur. Auðvitað eigum við sem störfum í stjórnmálunum þar hlut að máli, en ég held að við verðum líka að horfast í augu við það að samfélagssáttmálinn sem við búum við er gallaður. Stjórnarskráin og leikreglurnar sem hún markar duga ekki.

Við sáum í vetur að ríkisstjórnin náði ekki að koma hér fram með tillögur um framtíðarfyrirkomulag fiskveiðistjórnar vegna þess að það vantar ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Og hér er komið fram makrílfrumvarp sem ofbýður réttlætiskennd okkar allra vegna þess að í því frumvarpi er ekki að finna virðingu fyrir grundvallarréttinum um þjóðareign á sameiginlegum auðlindum.

Við ræðum hér á eftir fruntagang ríkisstjórnarinnar hvað varðar rammaáætlun. Það mál minnir okkur líka á mikilvægi þess að í stjórnarskrá séu ákvæði um umhverfismál. Við sjáum síðan þrætur um það í samfélaginu hversu margir þurfi að skrifa undir áskoranir um að málum verði vísað í þjóðaratkvæði, sem sýnir hversu fráleitt það er á 21. öld að lýðræðisþjóð búi ekki við skýrar reglur um það hvernig almenningur geti ákveðið sjálfur að taka til sín átakamál.

Við höfum, virðulegi forseti, glugga næsta árið til að breyta öllum þessum ákvæðum í samstöðu hér á Alþingi. Og það er mjög mikilvægt að minna á að þessar vikurnar fer fram úrslitaatlagan að því hvort við getum náð saman um slíkar breytingar. Yfirlýsingar forustumanna Framsóknarflokksins hér í vetur benda til þess að það sé 2/3 þingmannameirihluti hér á Alþingi fyrir alvöruákvæði um þjóðareign á auðlindum (Forseti hringir.) svo dæmi sé tekið. Það er engin ástæða til að nýta ekki glugga til stjórnarskrárbreytinga. Það er mikilvægt að halda vel á spöðunum á næstunni.