144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er nóg, þetta er nóg, syngur Ágústa Eva Erlendsdóttir í hlutverki Elsu í vinsælu barnamyndinni Frozen. Og þetta er ekki bara sungið af henni og börnum þessa lands heldur fara æ fleiri Íslendingar með þessi orð. Þetta er nóg, segja launþegar þessa lands, sem tugum saman leggja niður störf til að berjast fyrir betri kjörum og réttlæti, og þetta er nóg, segja of margir Íslendingar á hverjum degi sem kjósa að flytja búferlum til annarra landa í leit að bættum hag.

Og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra skilur bara ekkert í þessu. Margsinnis hefur komið fram, og nú síðast í gær í þessum sal, í óundirbúnum fyrirspurnatíma, að hann skilur bara ekkert hvert við erum að stefna. Í gær hélt hann því blákalt fram að engin innstæða væri fyrir átökum á vinnumarkaði á þeim forsendum sem lagt sé upp með og kallar eftir ró og skynsemi af hálfu launþega. Hann kallar eftir ró og skynsemi af hálfu launþega og leggur ekkert annað af mörkum til lausnar deilnanna. Nú þegar hæstv. ríkisstjórn er rúin öllu trausti eftir að hafa misboðið réttlætiskennd þjóðarinnar með margvíslegum hætti síðastliðin tvö ár.

Ég þarf ekki að telja upp hér allar aðgerðirnar sem fært hafa tugi milljarða úr ríkissjóði til þeirra sem best eru staddir, sem hefði mátt nýta til velferðarmála, í bættar samgöngur eða niðurgreiðslu skulda. Ég þarf ekki að nefna hér brot á samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um réttindi langtímaatvinnulausra, hækkun gjalda á þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda eða fyrirhugaða afhendingu auðlinda þjóðarinnar á silfurfati til fárra útvaldra. Þetta þekkja allir og fleira til. Það er komið nóg, krafan er jöfnuður og réttlæti.