144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Íslendingar standa nú frammi fyrir einu vandasamasta verkefni sem þeir hafa nokkru sinni glímt við, sem er afnám gjaldeyrishafta. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði að það þyrfti að vanda tímann vel vegna þess að það væri bara eitt skot í byssunni. Það vill svo til að tækifærið hefur staðið opið í næstum því heilt ár. Samt hefur ekkert gerst.

Á sínum tíma bjó fyrri ríkisstjórn til ákjósanlega vígstöðu fyrir Ísland til þess að glíma við kröfuhafa til að nudda niður krónueigninni sem er forsenda afnámsins. Það gerði hún með því að koma hér í gegn eftir lokun markaða á einni nóttu lögum sem læstu inni alla krónueign slitabúanna. Allir bjuggust við því að ný ríkisstjórn færi í það verk að nota þessi tæki til að ná niður krónueigninni, en það gerðist ekki neitt.

Þetta var útskýrt í nýlegri skýrslu sem tveir sérfræðingar, dr. Ásgeir Jónsson og dr. Hersir Sigurgeirsson, birtu í síðustu viku. Þar kom fram að þessi töf stafaði af því að innan ríkisstjórnarinnar hefðu staðið átök millum forustumanna ríkisstjórnarinnar um svokallaða gjaldþrotaleið, leið sem hæstv. forsætisráðherra vildi fara en var talin af sérfræðingum háskaleg og geta leitt yfir Ísland svipaða stöðu og Argentína lenti í gagnvart hrægammasjóðunum. Skýrsluhöfundar halda því fram með rökum að þetta hafi leitt til þess að við höfum misst niður a.m.k. eitt ár. Það má velta því fyrir sér hvað þessi ágreiningur millum forustumanna ríkisstjórnarinnar hafi kostað íslenskt samfélag. Þá vísa ég til þess að fyrir um það bil 17 mánuðum birti Viðskiptaráð skýrslu þar sem menn reiknuðu út kostnaðinn og það kom í ljós að á einu ári kosta gjaldeyrishöftin íslensk fyrirtæki 80 milljarða. Þetta er það sem vinnubrögð hæstv. forsætisráðherra hafa kostað íslenskt samfélag. (Forseti hringir.) Ég segi nú af því tilefni, herra forseti: Dýr mundi Sigmundur allur.