144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar til að gera að umtalsefni það sem við lukum dagskránni á hér í gær, þ.e. eflingu byggða og hvernig við getum styrkt þær með einhverjum hætti. Við fjölluðum þar meðal annars um tengingu aflaheimilda við byggðir og hvernig hægt er að styðja við fólk varðandi nám.

Áðan var komið inn á það hvernig hæstv. menntamálaráðherra virðist markvisst vera í þeim aðgerðum að sameina framhaldsskóla án þess að sú breytta menntastefna sem felst í því verklagi komi hér fyrir þingið. Við ræddum það töluvert við fjárlagagerðina og gerðum við það miklar athugasemdir, við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, og ekki að ástæðulausu. Ráðherrann ætlar að sameina skóla af stórum svæðum bara af því þeir eru innan sama kjördæmis, virðist vera, eins og hér kom fram með framhaldsskólann á Vestfjörðum og á Sauðárkróki. Hvað þýðir það? Það þýðir skerðingu á verk- og starfsnámi og tæknimenntun. Það þýðir í raun að námið verður fært til og skorið niður á öðrum hvorum staðnum, væntanlega fyrir vestan, og takmarkar þar af leiðandi tækifæri þeirra íbúa sem þar búa til að sækja sér menntun og þá sérstaklega meðfram vinnu, eins og skerðingin varðandi 25 ára einstaklinga og eldri gerði og heldur áfram að gera í ljósi þess verklags sem viðhaft var við fjárlagagerðina.

Við höfum kallað eftir því að byggðastefna sé raunveruleg en ekki eitthvert orðagjálfur sem farið sé með úr ræðustól Alþingis. Það er ekki raunveruleg byggðastefna að ætla að flytja eitt stykki stofnun eitthvert út á land, og skera jafnharðan niður. Því að hvað þýðir sameining skóla? Hún þýðir fækkun á háskólamenntuðum störfum. Nákvæmlega það og ekkert annað. Hún þýðir færri tækifæri fyrir fólk til að stunda nám (Forseti hringir.) og fjölbreytni náms verður minni. Ráðherrann verður að koma hér í þingsal og (Forseti hringir.) standa skil á því sem hann er að gera á bak við tjöldin.