144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[14:08]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér hafa, heyrist mér á öllu, þingsköp hreinlega verið brotin. Það átti að bera þessa tillögu upp hér í upphafi þingfundar. Ég vil fá skýringu hjá hæstv. forseta á því hvers vegna það var ekki gert. Það er ekki hægt að segja við okkur, flutningsmenn tillögunnar, að það hafi verið sendur tölvupóstur til formanna þingflokka vegna þess að það dugar okkur ekki þegar ekki var haft samráð við okkur.

Formenn þingflokka telja að málið sé í okkar höndum og að ákvörðun um þetta og samráð sé í höndum þeirra sem flytja tillöguna. Svo var ekki í þessu tilfelli og ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir það afar slæmt að ef þingmenn leggja fram svona tillögu, sem gerist ekki oft, sé farið svona með hana, bara algjörlega eftir hentugleika. Í upphafi þingfundar skal það vera ef menn treysta sér ekki til að gera þetta strax og hún er borin upp.

Ég vil skýringu á því hvers vegna það var ekki gert.