144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[14:25]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er eiginlega mjög merkilegt, og ég tek undir með hv. þingmanni sem talaði síðast, hvers vegna stjórnarþingmenn koma ekki hér og gera grein fyrir ástæðunni fyrir þeim asa sem þarf að fylgja þessu máli, mjög svo umdeilda máli. Það eru ekki allir sem lesa níu síðna nefndarálit eins og var kallað fram í og það er ástæða til þess að gera grein fyrir því hvers vegna þetta sé brýnasta mál þingsins í ljósi þeirrar stöðu sem hér er. Það eru allir þingmenn hér inni meðvitaðir um að þinghaldinu er hleypt upp með þessu, það er alveg ljóst. Við höfum sagt það og við stöndum við það. Þannig er það. En ekki að það breyti óskaplega miklu vegna þess að hér koma afar fá mál fram, því miður. Ég spyr: Hvar er frumvarp um afnám hafta sem átti að koma bara á allra næstu dögum? Það eru átta dagar eftir af þinginu. Það stendur til að taka umræðu um opinber fjármál, viðamikið risastórt frumvarp. Hvenær eigum við að ræða þessi mál, virðulegi forseti? Hvenær á að koma með mál sem skipta raunverulega máli og valda ekki deilum og því að hér er allt upp í loft? Ég spyr hæstv. umhverfisráðherra (Forseti hringir.) sem hér var vitnað til áðan: Er hún sátt við þetta? (Forseti hringir.) Ég mundi óska eftir að hún kæmi hér og gerði grein fyrir því hvort hún er sátt (Forseti hringir.) við þessa málsmeðferð.