144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[14:33]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í þessu máli skiptir gríðarlega miklu að farið sé að leikreglum og menn séu alveg skýrir með það sem er á dagskrá, að ekki sé verið að beita þingskapaklækjum til að koma málum í gegn. Ég var alveg með það á hreinu að ég var að ræða fundarstjórn forseta þegar ég kom upp í fyrra skiptið áðan og taldi mig í fullum rétti til þess að fara síðan í ræðu um atkvæðagreiðsluna og svo í atkvæðaskýringu. Það er minn réttur samkvæmt þingsköpum að gera. Ég verð fyrir miklum vonbrigðum ef þetta á að vera svona, virðulegur forseti, vegna þess að það skiptir mjög miklu máli að forseti vinni bæði fyrir minni hluta og meiri hluta og að við getum átt traust forseta í þessum efnum. Þannig að ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með þessa fundarstjórn. Það skiptir mjög miklu máli að vandað sé til verka þegar kemur að þessu máli hérna. Það gengur ekki að það sleifarlag sem einkennir vinnulag atvinnuveganefndar í málinu sé látið ganga yfir fundarstjórn forseta líka.