144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[14:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tíunda það sem hér hefur verið sagt nokkrum sinnum. Ég vil bara halda því til haga að ég heyrði hv. þm. Jón Þór Ólafsson kalla „fundarstjórn forseta“ þegar hann bað um orðið, svo það sé á hreinu. En mér þykir hvimleitt að koma hingað í pontu og kvarta undan dagskránni undir þessum kringumstæðum vegna þess að hér eru tvö risavaxin mál sem þingið þarf fyrr eða síðar að taka afstöðu til og ræða ítarlega; það eru annars vegar virkjunarmálin, ramminn, og hins vegar yfirstandandi kjaradeilur. Við berum ábyrgð á því að nálgast bæði viðfangsefnin af virðingu og með það að leiðarljósi að ætla að ræða bæði málin nægjanlega mikið. Þegar rammanum er kastað hingað inn gerir það okkur ókleift sem þingi að takast á við kjaradeilurnar eins og við þurfum að gera. Við þurfum að ræða hvernig fyrirkomulagið er, hvernig hægt er að stilla til friðar (Forseti hringir.) og svo framvegis. Við getum það ekki með (Forseti hringir.) þetta grjót hér inni, (Forseti hringir.) það er ekki hægt, virðulegur forseti. (Forseti hringir.) Þetta er ábyrgðarleysi. Við getum ekki leyft okkur að vinna svona.