144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[14:36]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að játa að mér finnst ómaklega að forseta vegið hér. Hann hefur reynt í störfum sínum, jafnt í dag sem aðra daga, að halda í heiðri þau þingsköp sem við byggjum störf okkar á. Hafi orðið brestur á því með einum eða öðrum hætti er það svo, en að veitast að forseta þingsins eins og hér er gert, spyrja í hvaða liði forseti þingsins sé og það hvernig þingmenn tala til hæstv. forseta þykir mér, með fullri virðingu fyrir okkur þingmönnum, ómaklegt.

Virðulegur forseti. Enn eitt, og þar ætla ég að gera athugasemd við fundarstjórn forseta, og það er þegar hv. þm. Róbert Marshall leyfir sér að kalla þingmenn einhverjum nöfnum sem þeir ekki heita til þess annað tveggja að gera lítið úr þeim eða vekja athygli á sjálfum sér.