144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[14:44]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Störf forseta eru ekki hafin yfir gagnrýni. Þegar þingmönnum eða þingflokksformönnum er misboðið með fundarstjórn forseta er það þeirra réttur að koma hingað upp og gera grein fyrir því. Það er ekki verið að vega ómaklega að nokkrum manni með þeim hætti. Þannig fer umræðan fram. Um það að ég hafi verið að uppnefna þingmenn vil ég segja að ég hef í þrígang hér í þessum sal verið kallaður kommúnisti af hv. þm. Jóni Gunnarssyni og missti svo sem ekki svefn yfir því. (Gripið fram í.) Ég er ekki kommúnisti og kannast ekki við að hafa gengist undir þá skoðun. En það að ég hafi kallað hv. þingmann Jón Gunnarsson Friðjón Gunnarsson áðan er eitthvað sem ég geri ekki ráð fyrir að ég þurfi að biðja hann afsökunar á. Ég geri ekki ráð fyrir því að hann missi neinn svefn yfir því frekar en ég yfir því að vera kallaður kommúnisti. En ég bið hins vegar hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur afsökunar á því að hafa misboðið kímnigáfu hennar.