144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[14:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég óska einnig eftir efnislegum rökum fyrir því að þetta mál fari í hv. fjárlaganefnd en ekki í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Bankarnir og peningakerfið er miðdepillinn að efnahagnum þannig að maður hefði haldið að málið ætti heima í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Það er sú nefnd sem fjallar venjulega um svona mál, að manni skilst. Eins og þeir sem hafa talað hér áður þá sakna ég þess að einhver úr stjórnarmeirihlutanum taki til máls og rökstyðji þetta, útskýri ekki bara sína afstöðu til þess í hvaða nefnd hv. þingmenn telji að málið eigi að fara heldur rökstyðji það. Það læðist að manni sá grunur nú sem svo oft fyrr, þegar við stöndum frammi fyrir þeim skrýtnu aðstæðum að velta fyrir okkur í ósætti í hvaða nefnd mál eigi heima, að hv. þm. Frosta Sigurjónssyni sé ekki treyst af ríkisstjórninni til að meðhöndla málið. Það er sá grunur sem læðist að manni, skiljanlega kannski miðað við að það er ekki alveg einhugur um það hvernig eigi nákvæmlega að haga öllum þessum málum sem er eðlilegt að við ræðum hér um. (Forseti hringir.) Það vantar efnislegan rökstuðning.