144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[14:54]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Lögin um Bankasýslu ríkisins voru til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd og allar breytingar á þeim lögum hafa verið ræddar þar. Þar náðist samkomulag á sínum tíma þvert á flokka við þáverandi stjórnarandstöðu um að tryggja enn frekar aðskilnað milli hins pólitíska valds og fjármálafyrirtækjanna. Hæstv. fjármálaráðherra leggur nú fram frumvarp sem miðar að því að afnema algerlega þennan aðskilnað, koma eignarhaldi á fjármálafyrirtækjum í skúffu hjá sér og fá alvald um það með hvaða hætti farið er með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, endurvekja með öðrum orðum þá óheilladrjúgu sambúð stjórnmála og bankakerfis sem er búin að skaða íslenska þjóð um áratugi. Það er stóralvarlegt mál að svona frumvarp sé lagt fram, enn meira áhyggjuefni að hæstv. fjármálaráðherra handvelji nefndina sem á að fjalla um þetta. (Forseti hringir.) Það er verulegt áhyggjuefni ef þingsköp duga ekki lengur til að tryggja að nefndir fái mál til meðferðar eftir efni þeirra.