144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[14:57]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki heyrt nein einustu rök fyrir því hvers vegna á að taka málið frá efnahags- og viðskiptanefnd og færa til fjárlaganefndar. Það er það sem er verið að gera hér. Málefni Bankasýslunnar og starfsemi fjármálafyrirtækja hefur hingað til fengið umfjöllun í efnahags- og viðskiptanefnd en hér er verið að taka ákvörðun um að flytja málið og það hefur enginn rökstutt hvers vegna.

Við erum hins vegar með frumvarp sem skýrir mjög vel hvað í því er í nokkrum liðum, samantekið mjög þægilega á bls. 7 og 8. Ég hvet þá þingmenn sem hafa hugsað sér að greiða atkvæði með því að þessi málaflokkur verði fluttur til fjárlaganefndar til að renna nú yfir þessa liði vegna þess að hér er verið að fjalla um að leggja niður Bankasýsluna og að sett verði á laggirnar sérstök ráðgjafarnefnd ríkisins sem á að tilnefna í stjórnir fjármálafyrirtækja o.s.frv. Þetta eru mál sem snúa beinlínis að starfsemi fjármálafyrirtækja. Á fjárlaganefnd að fjalla um það og hefur gert í sögulegu samhengi? (Forseti hringir.) Svarið er: Nei. Það sem er hér á ferðinni er að enn á ný er verið að velja sér þægilegri nefnd til að senda málin í til að reyna að tryggja að þau komist í gegn.