144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[15:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Á meðan ekki koma fram góð rök fyrir því að vísa þessu máli til hv. fjárlaganefndar en ekki efnahags- og viðskiptanefndar, eins og málefni hafa áður verið, stendur sú fullyrðing óhögguð að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sé að handvelja sér nefnd. Í umræðu um þessi mál hefur áður verið bent á að samherjar hæstv. ráðherra eru fleiri í hv. fjárlaganefnd eða svo virðist að minnsta kosti vera. Þrír af fjórum meðlimum hagræðingarhópsins eru í hv. fjárlaganefnd en hagræðingarhópurinn lagði einmitt til að leggja niður Bankasýsluna.

Formaður efnahags- og viðskiptanefndar er hins vegar á móti því að hlutur í Landsbankanum sé seldur og er með samþykkt flokksþings framsóknarmanna fyrir því þannig að á meðan við fáum ekki góð rök fyrir þessari stefnubreytingu hlýtur sú fullyrðing að standa að hæstv. ráðherra sé að handvelja sér nefnd til að fjalla um málið en þingsköpum og hefðum í þinginu sé ýtt til hliðar.