144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[15:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nei, ég er ekkert hissa á að landsmenn séu dálítið þreyttir og uppgefnir, enda er þetta ekki í fyrsta sinn sem við upplifum það á Alþingi í vetur að lagt sé til að mál fari til nefndar þar sem þau eiga ekki endilega heima. Það eru vissulega oft rök fyrir því að mál geti átt heima í fleiri en einni nefnd en það sem hefur gerst í þinginu í vetur æ ofan í æ er að eitthvað er lagt til og síðan er ekki hlustað eftir þeim rökum að málin geti farið til annarrar nefndar.

Við erum að fara að ræða á eftir málefni rammaáætlunar sem færð voru mjög sannfærandi rök fyrr að ættu heima í umhverfisnefnd. Þau voru eigi að síður keyrð inn í atvinnuveganefnd. Við getum farið yfir frumvarp um verndarsvæði í byggð. Þar voru færð mjög sannfærandi rök fyrir því að þau mál ættu best heima með skipulagsmálum í umhverfisnefnd, en þau eru samt send til allsherjar- og menntamálanefndar.

Nú erum við að ræða Bankasýsluna og það eru færð afar sannfærandi rök fyrir því að málið hafi átt heima í hv. efnahagsnefnd en það er samt sent inn í fjárlaganefnd. Tilhneigingin virðist alltaf vera sú að það sé búið að taka ákvörðun fyrir fram og menn séu (Forseti hringir.) ekki reiðubúnir í rökræðuna fyrir þessu. Ég hef áhyggjur af því að þingið sé ekki með nægilega (Forseti hringir.) skýrar línur í þessum efnum, herra forseti.