144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[15:08]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp fjallar um eigandastefnu ríkisins gagnvart fjármálafyrirtækjum. Þetta frumvarp fjallar um það að leggja á niður Bankasýsluna. Það er meðferð á eignum. Þetta frumvarp fjallar um að það eigi að setja á laggirnar ráðgjafarnefnd til að taka ákvarðanir um það hverjir sitji í stjórnum fjármálafyrirtækja fyrir hönd ríkisins. Þetta frumvarp fjallar að langmestu leyti um starfsemi fjármálafyrirtækja. Þess vegna á það betur heima hjá efnahags- og viðskiptanefnd þar sem slík umfjöllun á að fara fram.

Þegar hæstv. fjármálaráðherra leggur hins vegar beinlínis fram tillögu um sölu á eignarhlutunum er komið að hlutverki fjárlaganefndar. Það á sér ekki stað í þessu máli. Þess vegna má fullyrða að hæstv. fjármálaráðherra sé að taka ákvörðun um að velja sér þægilegri nefnd vegna þess að það getur ekki (Forseti hringir.) annað verið á ferðinni, málið á svo klárlega heima hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd.