144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við þingmenn fengum álit þingforseta ekki rafrænt, heldur bara með bréfi inn á þingflokksskrifstofu þremur korterum fyrir þingfund, þá fengum við álitið sem hann las upp hérna rétt áðan. Álit hans, eða ályktun hans, hann ályktar að svona sé þetta af því að þingforseti hefur jú alræðisvaldið þegar kemur að lögum um þingsköp, og þetta er ályktun hans. Ókei, hann hefur alræðisvaldið og getur bara sagt: Svona er þetta, þið verðið bara að taka því, gjörið þið svo vel. En að gefa okkur þá ekki alla vega tíma til þess að bregðast við áður en við förum inn í þessa umræðu, sem er síðari umræða af tveimur um þingsályktunartillögu þar sem klárlega er verið að fara á svig við lögin í gríðarlega stóru átakamáli, þar sem verið er að sveigja út frá langtímastefnumótun og skapa gríðarlega ósátt — ég held að þingforseti hljóti að sjá að það er bara alls ekki gott að beita alræðisvaldi sínu svona.