144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:46]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill árétta út af því sem fram hefur komið í þessari umræðu og haldið hefur verið fram, að í fyrsta lagi er hér um að ræða úrskurð forseta. Kallað var eftir því þegar málið var afgreitt á sínum tíma úr atvinnuveganefnd að forseti úrskurðaði varðandi tiltekin álitaefni sem forseti gerði grein fyrir í þessum úrskurði sínum.

Niðurstaðan sem hér liggur fyrir er úrskurður forseta og það er endanlegur úrskurður. Auðvitað geta hv. þingmenn haft ýmsar skoðanir á þeirri niðurstöðu og úrskurði forseta og vísað í önnur álit, en hvað varðar þau álitaefni sem forseti stóð frammi fyrir hefur hann komist að þeirri niðurstöðu sem hann hefur fært rök fyrir í þessum úrskurði sínum. (Gripið fram í.)

Það er hins vegar svo að við erum hér meðal annars að fjalla um breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram við upphaflegt þingskjal, þingsályktunartillöguna, og það er Alþingi sjálft sem tekur að lokum hina efnislegu ákvörðun um meðferð þessara breytingartillagna og tillögunnar eins og hún var upphaflega.

Síðan vill forseti að lokum vekja athygli á því sem hann nefndi í lokaorðum sínum hér áðan, að þingmenn sem eru ósammála um þennan úrskurð eiga þann rétt samkvæmt þingsköpum að leggja fram frávísunartillögu með rökstuddri dagskrá samkvæmt 77. gr. þingskapa. Komi slík tillaga fram verða greidd atkvæði um hana við lok umræðunnar.