144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Fyrst af öllu harma ég það að enn einu sinni eru sprottnar upp miklar deilur um rammaáætlun. Ég segi fyrir mitt leyti að þegar iðnaðarnefnd sáluga leiddi frumvarp til laga í gegnum Alþingi með samþykkt allra var það með þeirri ósk að samstaða næðist um lögin, sem náðist, og þau vinnubrögð sem ættu að vera í framhaldi af því.

Ég kem aftur, virðulegi forseti, til að spyrja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sem ég sé að því miður er farin úr salnum um það álit ráðuneytis sem sannarlega má segja að sé lögskýringargagn með þessu máli þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Það er því mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að lög nr. 48/2011 geri ekki ráð fyrir að Alþingi geti gert breytingar á flokkun þessara kosta þar sem lögbundið ferli verndar- og orkunýtingaráætlunar hefur ekki farið fram hvað þá varðar.“

Þetta er mat umhverfis- og auðlindaráðherra. Ráðuneytið sendir þetta (Forseti hringir.) og þetta er lögskýringargagn með þessari þingsályktunartillögu. Ég vildi gjarnan að forseti beitti sér fyrir því að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra mundi koma og skýra okkur frá því hvort hún standi ekki enn þá við þetta álit.