144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í umsögn frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu koma líka fram efasemdir um að hér sé farið að lögum. Ráðuneytið segir einfaldlega, með leyfi forseta:

„Ef beitt yrði strangri túlkun á lögum nr. 48/2011, og ofangreindum ummælum í greinargerð, væri hægt að halda því fram að Alþingi gæti eingöngu gert breytingu hvað varðar þennan tiltekna virkjunarkost, Hvammsvirkjun.“

Það er með því að breyta henni úr orkunýtingarflokki í t.d. biðflokk eða verndarflokk eða öfugt.

Þarna er atvinnuvegaráðuneytið á sömu skoðun þótt það kveði ekki eins skýrt að orði og umhverfis- og auðlindaráðuneytið gerir. Hvað finnst hv. þingmanni um þetta álit? Og er hann ekki hræddur um, eins og ég, að verði þessi breytingartillaga samþykkt þá séu þessi gögn lögskýringargögn sem verða notuð í málaferlum um málið?