144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir ræðuna þar sem hann kynnti okkur framtíðarsýn sína sem mér heyrðist eiga rætur að rekja til 6. áratugar 20. aldar, a.m.k. vísaði hann einkum þangað þegar hann kynnti okkur framtíðarsýn sína í raforkumálum.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann ekki um hana heldur um sérstaklega þann virkjunarkost sem kallaður er Hagavatnsvirkjun, en í greinargerð tillögu hæstv. umhverfisráðherra segir, með leyfi forseta:

„Hvað Hagavatnsvirkjun varðar var ljóst eftir vettvangsferð verkefnisstjórnar að auk óvissu, sem áður var getið varðandi áhrif á sandfok, náttúrulega landmótun, útivist og ferðaþjónustu, var óljóst hvernig tengingu virkjunarinnar við flutningskerfið yrði háttað.“

Síðan er haldið áfram og sagt að niðurstaða verkefnisstjórnar hafi verið sú að hún hefði ekki forsendur til að meta virkjunarkostinn án aðkomu fullskipaðra faghópa, enda óljóst hvort slíkt vinnuferli stæðist ákvæði laga um verndar- og orkunýtingaráætlun.

Ég spyr hv. þingmann: Telur (Forseti hringir.) hann að þeir sex þingmenn sem skrifa undir nefndarálit meiri hlutans og gera þessa breytingartillögu hafi haft fullar forsendur til þess að (Forseti hringir.) meta það sem verkefnisstjórn taldi sig ekki hafa (Forseti hringir.) forsendur til að gera?