144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er alveg hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að rökin að baki Hagavatnsvirkjun eru með aðeins öðrum hætti og að mörgu leyti veikari en gagnvart hinum virkjunarkostunum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því. En það er að okkar mati, meiri hlutans, fullgildar ástæður til þess að senda þennan virkjunarkost í áframhaldandi mat. Ef horft er á niðurstöðu þeirrar verkefnisstjórnar sem núna starfar og hvaða atriði það eru sem út af standa, þá höfum við þegar fengið skýringar á hluta af þeim athugasemdum. Ég fór áðan yfir línulagnirnar. Þetta verður jarðstrengur og áhrifin verða ekki þar. Það lá reyndar fyrir og því óskiljanlegt af hverju þetta er tekið fram sem óvissuatriði. Í öðru lagi finnst mér vera óvissa um uppfok, það er dregið fram (Forseti hringir.) og ég tel að það sé atriði sem sé einmitt til þess fallið að fara í gegnum umhverfismat (Forseti hringir.) virkjananna, þar væri tekin endanleg ákvörðun.